Gunnar J. Straumland og Anna G. Torfadóttir í hænsnaparadísinni í garðinum þeirra.

Myndlistarsýning tileinkuð hænunni Belindu verður opnuð í Akranesvita

Hjónin Anna G. Torfadóttir og Gunnar J. Straumland stefna á að halda saman listasýningu í Akranesvita í júlí. Sýningin verður opnuð föstudaginn 6. júlí og stendur yfir út júlímánuð. Er þetta fyrsta listasýningin sem þau halda saman í 12 ár en áður hafa þau haldið sýningar hvort í sínu lagi. Þau eru bæði myndlistarmenn og útskrifuðust saman úr Myndlista- og  handíðaskólanum árið 1987. Anna er grafíklistamaður og Gunnar listmálari og kennari í Grunnskólanum í Borgarnesi. Blaðamaður Skessuhorns heimsótti þau í Melahverfið í Hvalfjarðarsveit og ræddi við þau um listina, hænsnabúskap, kveðskap og margt fleira.

Ævintýrin í náttúrunni

Anna og Gunnar hafa bæði verið með pensilinn í hönd alla tíð og segja listina hafa verið þeim í blóð borin. Þau eru þó fremur ólíkir listamenn og þó þau vinni bæði mikið heima vinna þau ekki saman. Anna vinnur með grafík þar sem verkin eru unnin í nokkrum stigum. Hún tekur ljósmyndir á gönguferðum, myndar náttúruformin og blandar þeim saman við grafíkina, svona eins og þegar tvær ólíkar myndaglærur eru lagðar saman. Hún notar tréplötur, línolíumdúk, kopar-, zink- og stálplötur til að búa til myndverkin. Í tré og línolíumdúk er skorið, en ætt með sýru í málmplöturnar. Á plöturnar er síðan borinn litur, pappír lagður ofan á og þessu er síðan rennt í gegnum grafíkpressu, þannig að mynd yfirfærist af plötunni á pappírinn. Gunnar vinnur mest með vatns- og olíuliti og málar gjarnan myndir af náttúrunni út frá ævintýralegu sjónarhorni. „Ég mála myndir þar sem ég dreg fram allt það sem við gætum séð náttúrunni en sjáum venjulega ekki,“ segir Gunnar. „Náttúran getur nefnilega verið svo ævintýraleg ef við opnum hugann örlítið.“

Nánar um listahjónin Önnu og Gunnar og dekurhænuna Belindu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir