Ljósm. úr safni/ gbh.

Markalaust í toppslagnum

ÍA og HK skildu jöfn í toppslag 1. deildar karla í knattspyrnu í gær. Þrátt fyrir fjörugan leik með fullt af góðum færum tókst hvorugu liðinu að koma boltanum yfir línuna og staðan því markalaus í leikslok.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og bæði liðin náðu að skapa sér ágætis færi. Heimamenn í HK áttu góða sókn á 26. mínútu sem endaði með skoti í varnarmann og þaðan rétt framhjá markinu. Skömmu síðar sendu Skagamenn góða sendingu inn á vítateig HK-inga. Þar var Albert Hafsteinsson í upplögðu færi en skalli hans að marki var varinn. ÍA sótti í sig veðrið og var öflugra það sem eftir lifði fyrri hálfleiks án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri. HK-ingar komu boltanum í netið á 32. mínútu en markið var ekki dæmt gilt vegna rangstöðu. Staðan í hálfleik því markalaus.

Skagamenn voru ívið sterkari framan af síðari hálfleik en náðu ekki að ógna markinu af neinni alvöru fyrr en á 70. mínútu. Þá átti Þórður Þorsteinn Þórðarson þrumufleyg sem Arnar Freyr Ólafsson í marki HK mátti hafa sig allan við að verja. Besta færi síðari hálfleiks og leiksins alls áttu hins vegar heimamenn á lokamínútu leiksins. Ingiberg Ólafur Jónsson átti þá skalla sem small í þverslánni eftir aukaspyrnu. Skagamenn sluppu þar með skrekkinn og niðurstaðan markalaust jafntefli.

Skagamenn sitja í efsta sæti deildarinnar með 17 stig eftir sjö umferðir og hafa tveggja stiga forskot á HK í sætinu fyrir neðan. Næst leika Skagamenn næstkomandi miðvikudag, 20. júní þegar þeir mæta Magna frá Grenivík á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir