Fráfarandi bæjarstjórn Snæfellsbæjar ásamt bæjarstjóra. F.v. í aftari röð eru Kristinn Jónasson bæjarstjóri, Júníana Björg Óttarsdóttir, Fríða Sveinsdóttir, Björn Haraldur Hilmarsson, Rögnvaldur Ólafsson og Kristján Þórðarson. Fyrir framan þau standa Kristjana Hermannsdóttir og Svandís Jóna Sigurðardóttir. Ljósm. snb.is.

Reynslumikið bæjarstjórnarfólk lætur af störfum

Fráfarandi bæjarstjórn Snæfellsbæjar fundaði í síðasta sinn á miðvikudaginn í síðustu viku. Þrautreyndir bæjarstjórnarfulltrúar láta af störfum og nýtt fólk kemur inn í þeirra stað, eins og gengur og gerist. Kristján Þórðarson á Ölkeldu hættir eftir 16 ára setu í bæjarstjórn, fjögur kjörtímabil og Kristjana Hermannsdóttir eftir tólf ár, eða þrjú kjörtímabil. Kristjana gegndi enn fremur stöðu forseta bæjarstjórnar á tímabili og hefur verið formaður bæjarráðs frá árinu 2010. „Það er því reynslumikið fólk sem hverfur á braut og kann Snæfellsbær því bestu þakkir fyrir góð störf,“ segir á vef Snæfellsbæjar.

Fimmtudaginn 14. júní næstkomandi tekur ný bæjarstjórn til starfa. Hana skipa núverandi bæjarfulltrúar Björn Haraldur Hilmarsson, Fríða Sveinsdóttir, Júníana Björg Óttarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson og Svandís Jóna Sigurðarsdóttir, en Auður Kjartansdóttir og Michael Gluszuk koma ný inn í bæjarstjórn. Bæjarstjóri verður áfram Kristinn Jónasson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira