Keppni í fullum gangi. Ljósm. Kraftlyftingafélag Akraness.

Keppt í kraftlyftingum og bekkpressu á Akranesi

Íslandsmeistaramót öldunga og unglinga í kraftlyftingum fór fram á Akranesi um helgina. Mótið var fámennt en góðmennt og góð stemning meðal keppenda og áhorfenda, að því er fram kemur á Facebook-síðu Kraftlyftingafélags Akraness.

Í bekkpressu í Junior flokki mætti Svavar Örn Sigurðsson úr Kraftlyftingafélagi Akraness til leiks. Hann lyfti 155 kg sem er hans besta lyfta til þessa og sigraði í greininni.

Fannar Björnsson úr Kraftlyftingafélagi Akraness keppti í kraftlyftingum í Subjunior flokki. Hann lyfti 150 kg í hnébeygju, 90 kg í bekkpressu og 180 kg í réttstöðu. Samanlagt 420 kg og 265,2 Wilksstig.

María Guðsteinsdóttir úr Ármanni mætti sterk til leiks í Masters I flokki -57 kg. Hún lyfti 137,5 kg í hnébeygju sem er nýtt Íslandsmet í Masters I flokki. Í bekkpressunni setti hún einnig nýtt Íslandsmet með lyftu upp á 77,5 kg og endaði svo daginn á að setja Íslandsmet í réttstöðu í opnum flokki með því að lyfta 168,5 kg. Samanlagt var María því með 383,5 kg, sem er nýtt Íslandsmet í Masters I flokki og 445 Wilksstig.

Í karlaflokki sigraði Guðfinnur Snær Magnússon úr Breiðabliki. Hann lyfti 350 kg í hnébeygjunni, 250 kg í bekkpressu og 275 kg í réttstöðu. Samanlagt 875 kg og 486,5 Wilksstig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir