Glódís Perla Viggósdóttir skoraði bæði mörk Íslendinga í leiknum gegn Slóvenum.

Ísland í efsta sætið

Ísland tók toppsætið í sínum riðli þegar það vann góðan og mikilvægan sigur á Slóvenum 2-0 í undankeppni HM kvenna á Laugardalsvelli í gær. Með sigrinum eru stelpurnar komnar upp fyrir Þýskaland í riðlinum sem situr í öðru sæti með 15 stig beint á eftir Íslandi sem er með 16 stig eftir sigur gærkvöldsins.

Tveir lykilmenn voru ekki í liðinu, Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði var fjarverandi vegna meiðsla á hásin og Dagný Brynjarsdóttir ólétt. Það kom ekki að sök þar sem aðrar fengu að spreyta sig og stíga upp fyrir vikið.

Fyrri hálfleikur var heldur hægur og það gekk erfiðlega að komast í gegnum slóvensku vörnina. Það var ekki fyrr en á 54. mínútu að fyrsta mark leiksins kom og var það Glódís Perla Viggósdóttir sem skoraði eftir góða sendingu frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur. Stuttu seinna var hún svo aftur á ferðinni þegar hún skallaði boltanum í netið eftir hornspyrnu á 67. mínútu. Þær slóvensku gerðu lítið til að laga stöðu sína það sem eftir var af leiktíma og íslenskur sigur því staðreynd.

Stelpurnar eiga tvo leiki eftir í undanriðli og verður næsti leikur á móti sterku liði Þýskalands 1. september sem verður algjör úrslitaleikur um toppsætið í riðlinum. Heimsmeistaramótið sjálft fer svo fram í Frakklandi á næsta ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir