Ingi Þór Steinþórsson hefur hér átt eitthvað vantalað við dómarann. Ljósm. úr safni/ sá.

Ingi Þór hættur hjá Snæfelli

Körfuknattleiksþjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson hefur látið af störfum hjá Snæfelli. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins síðasta miðvikudag. Ingi Þór þykir einn af bestu körfuknattleiksþjálfurum landsins. Hann hóf störf hjá Snæfelli árið 2009 og hefur þjálfað báða meistaraflokka félagsins, auk þess að halda utan um starf yngri flokka félagsins.

Hann á að baki glæstan feril sem þjálfari karla- og kvennaliðs Snæfells. Undir hans stjórn varð kvennalið Snæfells Íslandsmeistari þrjú ár í röð, 2014, 2015 og 2016, auk þess að vinna bikarmeistaratitilinn 2016 og deildarmeistaratitilinn 2014, 2015 og 2017.

Karlaliðið Snæfells gerði hann að Íslands- og bikarmeisturum árið 2010, auk þess að fagna með þeim deildarmeistaratitlinum 2011.

„Það er skemmst frá því að segja að framlag hans til körfuboltans hér í Hólminum bæði innan vallar sem utan hefur verið ótrúlegt og eftir því tekið,“ segir Gunnar Svanlaugsson, formaður kkd. Snæfells. „Fyrir hönd leikmanna, stuðningsfólks, styrktaraðila sem og stjórnar þakka ég Inga Þór og fjölskyldu fyrir mikinn metnað og elju í öllum sínum verkum til félagsins. Um leið óskum við þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.“

Sama dag og sagt var frá því að Ingi Þór hefði látið af störfum hjá Snæfelli var tilkynnt að hann myndi taka við þjálfun meistaraflokks karla hjá KR.

Líkar þetta

Fleiri fréttir