Víkingur Ó. klifrar upp töfluna

Ólafsvíkingar lyftu sér upp í fjórða sæti 1. deildar karla í knattspyrnu eftir 3-1 útisigur á Þrótti R. á föstudagskvöld.

Þróttarar fengu óskabyrjun því Hreinn Ingi Örnólfsson kom þeim yfir strax á sjöttu mínútu. Hornspyrna var skölluð þvert fyrir markið þar sem Hreinn var réttur maður á réttum stað og átti ekki í vandræðum að skora með viðstöðulausu skoti.

Leikmenn Víkings Ó. þurftu smá tíma til að finna taktinn eftir erfiða byrjun en smám saman komust þeir betur og betur inn í leikinn. Á 38. mínútu fengu þeir tækifæri til að jafna þegar dæmd var vítaspyrna á Þróttara. En Arnar Darri Pétursson markvörður gerði sér lítið fyrir og varði góða spyrnu Gonzalo Zamorano. En Víkingum tókst þó að brjóta ísinn skömmu síðar.  Kwame Quee átti góða stungusendingu sem ætluð var Ingibergi Kort Sigurðssyni. Arnar Darri kom út úr markinu og ætlaði að hreinsa boltann frá. Hann skaut hins vegar beint í Ingiberg, þaðan sem boltinn féll fyrir hann og átti Ingibergur ekki í vandræðum með að skora í autt markið. Staðan var því jöfn í hálfleik, 1-1.

Síðari hálfleikur byrjaði með látum þegar Gonzalo sendi boltann inn í teiginn þar sem Nacho Herreras henti sér á hann kom kom Víkingi yfir. Þróttarar fengu dauðafæri skömmu síðar og eftir því sem leið á sóttu þeir stífar. En það voru Ólafsvíkignar sem skoruðu. Á 59. mínútu kom löng sending fram völlinn. Boltinn hrökk af varnarmanni Þróttara og á Pape Mamadou Faye sem slapp einn í gegn og kláraði færið listilega vel.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og lokatölur því 3-1, Víkingi Ó. í vil. Liðið situr í fjórða sæti deilarinnar með tíu stig, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur Víkings fer fram í kvöld, miðvikudaginn 13. júní. Er það langþráður heimaleikur. Liðið mætir Leikni R. á spánýjum gervigrasvelli í Ólafsvík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir