Hafþór Pétursson nýbúinn að koma ÍA yfir gegn ÍR. Ljósm. gbh.

ÍA fór létt með ÍR

Skagamenn halda áfram góðri byrjun sinni í 1. deild karla í knattspyrnu þetta sumarið. Á föstudagskvöld tóku þeir á móti ÍR og unnu öruggan 3-0 sigur.

ÍA var mun sterkara liðið allan fyrri hálfleikinn en tókst þó ekki að brjóta ísinn fyrr en á 39. mínútu þegar þeir fengu aukaspyrnu úti á vinstri kanti. Ragnar Leósson sendi boltann fyrir markið, beint á kollinn á Hafþóri Péturssyni sem stangaði hann í netið. Staðan 1-0 í hálfleik.

Skagamenn komu ákveðnir til síðari hálfleiks og hefðu hæglega getað bætt tveimur mörkum við fyrsta korterið. Fyrst átti áðurnefndur Ragnar Leósson þrumufleyg af 30 metrunum sem small í samskeytunum. Skömmu síðar var það Stefán Teitur Þórðarson sem smellti boltanum í þverslána eftir undirbúning Bjarka Steins Bjarkasonar. Stefán Teitur skaut síðan yfir úr dauðafæri aðeins mínútu síðar.

Gestirnir máttu prísa sig sæla að vera aðeins einu marki undir en það átti eftir að breytast. Stefán Teitur skoraði annað mark Skagamanna á 86. mínútu með góðu skoti fyrir utan teig í bláhornið. Það var síðan Garðar Gunnlaugsson sem innsiglaði 3-0 sigur ÍA á 88. mínútu. Markvörður gestanna náði ekki að grípa fyrirgjöf frá vinstri og boltinn féll fyrir Garðar sem kláraði vel.

Með sigrinum tylltu Skagamenn sér í toppsæti deildarinnar með 16 stig eftir fyrstu sex leikina og hafa þeir tveggja stiga forskot á HK í sætinu fyrir neðan. Efstu liðin tvö mætast einmitt í deildinni á miðvikudaginn, 13. júní.

Líkar þetta

Fleiri fréttir