Ljósm. Knattspyrnufélagið Kári.

Gott gengi Kára heldur áfram

Kári gefur hvergi eftir í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu. Liðið vann 3-2 sigur á Leikni frá Fáskrúðsfirði í miklum baráttuleik í Akraneshöll í gær.

Gestirnir höfðu undirtökin í upphafi leiks og komust yfir strax á 5. mínútu með marki frá Degi Inga Valssyni. Eftir því sem leið á komust Káramenn betur og betur inn í leikinn. Þeir sóttu æ stífar og tókst að lokum að jafna metin á 44. mínútu. Ragnar Már Lárusson fékk þá boltann í fætur og renndi honum í markið af mikilli yfirvegun. Staðan í hálfleik var því jöfn, 1-1.

Káramenn fengu síðan óskabyrjun í síðari hálfleik. Þeir fengu aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Páll Sindri Einarsson stillti boltanum upp, lyfti honum yfir vegginn og í netið. Glæsilegt mark hjá Páli Sindra og hans fjórða aukaspyrnumark í sumar.

Káraliðið féll aðeins til baka eftir markið en höfðu áfram góð tök á leiknum. Þeir bættu þriðja markinu við á 86. mínútu þegar Gylfi Brynjar Stefánsson skoraði eftir laglega sókn. Staðan orðin 3-1 og lítið eftir af leiknum. En gestirnir neituðu að gefast upp og náðu að minnka muninn á lokamínútunni með marki frá  Povilas Krasnovskis. Darius Jankauskas var síðan rekinn af velli í liði gestanna eftir hættulega tæklingu í uppbótartíma. Skömmu síðar var flautað til leiksloka og 3-2 sigur Kára staðreynd.

Kári situr í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig, jafn mörg og Þróttur V. í sætinu fyrir ofan og einu stigi á eftir toppliði Aftureldingar, sem er einmitt næsti mótherji liðsins. Leikur Kára og Aftureldingar fer fram í Mosfellsbæ  fimmtudaginn 14. júní.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.