Á hátíðinni var undirritaður tímamótasamningur milli Skógræktarfélags Borgarfjarðar, með aðild Skógræktarfélags Íslands, við Reykholtsstað um stækkun lands fyrir Reykholtsskóga. Ljósm. bhs.

Aukið land tekið undir Reykholtsskóga

Á laugardaginn var þess minnst í Reykholti að 250 ár eru liðin frá því Eggert Ólafsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir fórust ásamt föruneyti sínu á Breiðafirði. Eggert og Ingibjörg höfðu árið 1767 haldið eitt glæsilegasta brúðkaup allra tíma í Reykholti. Í minningu Eggerts var haldin hátíð í tali og tónum á vegum Snorrastofu í Reykholti. Hátíðin hófst með því að gestir gengu saman inn að Eggertsflöt þar sem afhjúpað var skilti um brúðkaup þeirra Eggerts og Ingibjargar. Skilti þetta er fagurlega skreytt með litfagurri mynd eftir listakonuna Sól Hrafnsdóttur af brúðkaupinu.

Við afhjúpunina var jafnframt undirritaður tímamótasamningur milli Skógræktarfélags Borgarfjarðar, með aðild Skógræktarfélags Íslands, við Reykholtsstað. Samningurinn gengur út á stækkun lands undir skóg. Það var nemendasamband Reykholtsskóla sem hóf skógrækt í Reykholti í kringum 1940 en frá 1948 hafa afkomendur prestshjónanna Einars Pálssonar og Jóhönnu Eggertsdóttur Briem verið þar miklir brautryðjendur. Síðan þá hefur landssvæði undir skóg verið stækkað nokkrum sinnum. Eftir undirritun samningsins á laugardaginn hefur svæðið verið stækkað um helming og er nú um 300 hektarar og nær eftir Reykholtslandi alla leið norður að Hvítá. „Við bindum miklar vonir við þessa stækkun, að hún bæði hjálpi til við kolefnisjöfnun nú á dögum mikillar mengunar og að hún stilli vinda og taki af okkur sterkar áttir. Auk þess verða skógar sem þessir til mikils yndis fyrir ferðamenn og alla aðra sem vilja njóta vistar í skógi. Í tilefni stækkunarinnar var einnig vígt sérstækt skógræktarskilti sem gerir grein fyrir stækkuninni,“ segir Óskar Guðmundsson formaður Skógræktarfélags Borgarfjarðar í samstali við Skessuhorn.

Að lokinni athöfn í Reykholtsskógi var haldið til kirkju þar sem Óskar rakti ævisögu Eggerts og sagði frá kvæðum og ljóðum sem hann hafði ort. „Eggert var einn merkasti vísindamaður þjóðarinnar á sínum tíma. Hann var einnig gríðarlega gott skáld í 18. aldar anda og okkur fannst því tilvalið að láta hans kvæði vera ráðandi á hátíðinni. Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson vann með mér að dagskránni og flutti þjóðlög með aðstoð Kristínar Á Ólafsdóttur við texta Eggerts Ólafssonar, auk þess sem hann samdi fágætlega falleg lög við sum kvæðanna fyrir hátíðina,“ segir Óskar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.