Íslensku strákarnir fagna marki Kára Árnasonar gegn Gana. Ljósm. þe.

Jafntefli við Gana í síðasta leik fyrir HM

Ísland gerði 2-2 jafntefli við Gana í vináttulandsleik í knattspyrnu í gær. Ísland komst yfir strax á 6. mínútu þegar Kári Árnason skoraði með laglegum skalla eftir hornspyrnu. Ísland stýrði leiknum án þess þó að skapa sér mörg færi í fyrri hálfleiknum. Það var ekki fyrr en á 40. mínútu að Íslendingar fengu almennilegt færi á nýjan leik. Birkir Bjarnason slapp einn í gegn eftir sendingu Gylfa Þórs Sigurðssonar. Birkir skaut að marki en Lawrence Zigi í marki Gana varði skotið beint fyrir Alfreð Finnbogason sem skallaði hann í opið markið. Ísland var því 2-0 yfir í hálfleik.

Síðari hálfleikur fór frekar rólega af stað en eftir því sem leið á fóru Ganverjar að komast betur og betur inn í leikinn. Þeir minnkuðu muninn á 66. mínútu. Eftir hornspyrnu féll boltinn fyrir Kasim Nuhu sem þrumaði honum upp í samskeytin. Ganverjar jöfnuðu síðan á 87. mínútu eftir ágætan samleik. Þeir létu boltann ganga í kringum teiginn þar til þeir fundu Thomas Partey óvaldaðan í teignum sem þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að leggja boltann í netið. Lokatölur urðu því 2-2.

Leikurinn var síðasti undirbúningsleikur íslenska landsliðsins fyrir HM í Rússlandi sem hefst næsta fimmtudag. Liðið flýgur út á morgun, laugardag og leikur síðan fyrsta leik sinn viku síðar, laugardaginn 16. júní. Þá mætir Ísland liði Argentínu með Lionel Messi í broddi fylkingar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir