Sundfélag Hafnarfjarðar stigahæst á Akranesleikunum

Akranesleikarnir í sundi fóru fram um síðustu helgi, dagana 1. til 3. júní. Synt var í Jaðarsbakkalaug. Mótið var vel sótt, en 302 keppendur frá 13 sundfélögum skráðu sig til leiks, þar af eitt félag frá Kanada. „Frábær helgi, frábærir krakkar og góð stemning,“ segir í tilkynningu frá Sundfélagi Akraness.

Mótið er stigakeppni milli félaga þar sem fyrstu fimm keppendur í hverri greint safna stigum fyrir sitt félag. Tvöföld stigagjöf er í boðsundsgreinum. Fór svo að lokum að Sundfélag Hafnarfjarðar stóð uppi sem sigurvegari á mótinu en gestgjafarnir í Sundfélagi Akraness hrepptu annað sætið. Sundfélagið Óðinn frá Akureyri hafnaði í þriðja sæti mótsins.

Ágúst Júlíusson átti stigahæsta sundið og Brynhildur Traustasdóttir það næststigahæsta. Bæði synda þau fyrir Sundfélag Akraness. Þriðja stigahæsta sundið átti Þura Snorradóttir úr Óðni. Sundfélagið Óðinn var valið prúðasta liðið í mótinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir