Garðar Hafstseinsson og Una Rut Jónsdóttir.

Af frystitogara yfir á kajak

Í Grundarfirði er nýtt fyrirtæki í ferðaþjónustu að skjóta rótum. Það er kajakleigan Vestur Adventures sem hefur aðsetur í Torfabótinni sem stendur við götuna Sæból. Það eru þau Garðar Hafsteinsson og Una Rut Jónsdóttir sem eiga og reka fyrirtækið en þau eru nýbúin að fjárfesta í einbýlishúsi og eru flutt til Grundarfjarðar. Garðar er uppalinn í Grundarfirði og er því að flytja aftur á æskuslóðirnar en Una kemur úr höfuðborginni.

Garðar var til sjós á Brimnesinu en þurfti að gefa sjómennskuna upp á bátinn vegna þrálátra bakmeiðsla. Una Rut starfar sem flugfreyja og er komin í fæðingarorlof en þau eiga von á barni í júlí. „Læknirinn sagði mér að ég þyrfti að koma mér í land ef ég ætlaði að notast við bakið á mér í framtíðinni,“ segir Garðar í stuttu spjalli við blaðamann. „Maður verður bara að hlýða því þannig að ég þurfti að finna mér eitthvað annað að gera,“ bætir hann við.

Parið var búið að velta ýmsum möguleikum fyrir sér og hugurinn reikaði oft til Grundarfjarðar. „Mér fannst vanta eitthvað fyrir alla þessa ferðamenn sem eru hérna í Grundarfirði að dást að Kirkjufellinu þannig að við vorum að skoða eitthvað í kringum það. Opna búð, sæþotuleigu eða eitthvað álíka og þá duttum við inn á þessa kajaka hugmynd,“ segir Una Rut. „Við fórum í GG Sport til að skoða kajaka og þegar við gengum út úr versluninni þá vorum við búin að panta tíu kajaka og tólf þurrgalla,“ segir Garðar hlæjandi en þar með var ekki aftur snúið. „Við höfðum samband við Grundarfjarðarbæ og fengum mjög góð viðbrögð hjá þeim. Okkur var úthlutað svæði hér í Torfabótinni og erum búin að setja upp aðstöðu þar,“segir Una Rut. „Þau Halldór Halldórsson og Sigríður Hjálmarsdóttir markaðs- og menningarfulltrúi Grundarfjarðarbæjar voru mjög hjálpsöm en fjölskylda Halldórs rekur svona kajakleigu á Ögri við Ísafjarðardjúp,“” bætir Garðar við.

Garðar er leiðsögumaður og rær út með ferðamennina en Una Rut sér um bókanir og vefsíðuna vesturadventures.is en stefnt er á að fara þrjár ferðir á dag og svo er hægt að panta fyrir hópa. „Þetta hefur farið frekar rólega af stað í maí enda veðrið ekki verið okkur hliðhollt,“ segir Garðar en hann sér fram á bjartari tíma. „Við erum byrjuð að taka við bókunum og það eru þónokkrar bókanir komnar í júní og júlí,“ bætir Una við. „Þetta leggst mjög vel í okkur og við erum bjartsýn á framhaldið,“ segja þau skötuhjú og hvetja alla til að prufa svona kajakferð enda sé þetta mjög gefandi fyrir líkama og sál.

Líkar þetta

Fleiri fréttir