Árni Snær Ólafsson hélt markinu hreinu og varði vítaspyrnu í sigri Skagamanna. Ljósm. gbh.

Skagamenn sóttu sigur gegn Fram

Skagamenn gerðu góða ferð til Reykjavíkur í gær og sigruðu Fram 0-1 í 1. deild karla í knattspyrnu í gær.

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill. Eftir rúmlega korters leik meiddist Arnór Daði Aðalsteinsson, leikmaður Fram, og þurfti að bera hann af velli. Hann var síðan fluttur burt í sjúkrabíl og óvíst hve alvarleg þau meiðsli eru. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik og staðan markalaus í hléinu.

Skagamenn brutu ísinn á 49. mínútu þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson skoraði sitt fyrsta mark í sumar. Bjarki Steinn Bjarkason átti góðan sprett og lagði boltann út í teiginn á Þórð sem setti hann af öryggi í hægra hornið niðri.

Framarar settu nokkra pressu á Skagamenn eftir markið án þess þó að skapa sér nein marktækifæri. Það var ekki fyrr en á 68. mínútu að þeir fengu tækifæri til að jafna. Guðmundur Magnússon féll í teig Skagamanna og vítaspyrna var dæmd. Guðmundur steig sjálfur á punktinn en Árni Snær Ólafsson las hann eins og opna bók og varði spyrnuna.

Botninn datt heldur úr leiknum það sem eftir lifði. Skagamenn hefðu getað innsiglað sigurinn í uppbótartíma þegar þeir komust tveir á móti einum en það færi rann út í sandinn. Lokatölur urðu því 0-1, ÍA í vil.

Skagamenn sitja í öðru sæti deildarinnar með 13 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar, jafn mörg og HK í toppsætinu og þremur stigum fyrir ofan Þór í sætinu fyrir neðan. Næst leikur ÍA á föstudaginn, 8. júní, þegar liðið mætir ÍR á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir