Ljósm. úr safni/ þa.

Ólafsvíkingar töpuðu á Selfossi

Víkingur Ó. varð að lúta í gras fyrir Selfossi, 2-1, þegar liðin mættust í fimmtu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í gær. Leikið var á Selfossi.

Ólafsvíkingar mættu mjög ákveðnir til leiks, pressuðu hátt og náðu nokkrum skotum að marki Selfyssinga strax á fyrstu mínútum leiksins. Á 6. mínútu leiksins komust heimamenn í fyrsta skiptið yfir miðju. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson fór upp hægri kantinn og sendi góðan bolta inn á teiginn. Þar kom Ivan Martinez Gutierrez á ferðinni og skoraði og heimamenn komnir yfir. Bæði lið fengu sín færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en það voru Selfyssingar sem nýttu eitt af sínum. Skömmu fyrir hálfleik tóku þeir langt innkast. Fran Marmolejo kom út úr markinu en hitti ekki boltann þegar hann ætlaði að kýla hann frá. Gilles Ondo skallaði að marki en Víkinga sem björguðu á línu og náðu að hreinsa boltann frá. Selfyssingar sendu hann aftur inn á teiginn þar sem Ingi Rafn Ingibergsson kom honum í netið. Heimamenn 2-0 yfir í hléinu.

Síðari hálfleikur var rólegur framan af, eða allt þar til Ólafsvíkingar jöfnuðu á 62. mínútu. Sasha Litwin átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Selfyssinga á Gonzalo Zamorano sem lék á markvörðinn og sendi boltann í netið. Leikmenn Víkings fengu gullið tækifæri til að jafna um korteri síðar. Boltinn féll fyrir Kwame Quee á miðjum vítateig Selfyssinga en skot Kwame fór hátt yfir markið. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og Víkingur Ó. mátti því sætta sig við tap, 2-1.

Ólafsvíkingar sitja í 6. sæti deildarinnar með sjö stig, jafn mörg og næstu tvö lið fyrir ofan og neðan. Næst mætir Víkingur Ó. liði Þróttar á útivelli á föstudaginn, 8. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir