Bergdís Fanney Einarsdóttir í baráttunni við leikmann Þróttar. Ljósm. sas.

Erfið byrjun reyndist Skagakonum dýrkeypt

Skagakonur þurftu að játa sig sigraðar gegn Þrótti R. þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu á föstudagskvöld. Leikurinn fór fram á Akranesi þar sem gestirnir skoruðu tvö mörk gegn engu.

Þróttarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust yfir strax á 3. mínútu þegar Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði með föstu skoti. Aðeins sex mínútum síðan bættu gestirnir öðru markinu við þegar Gabriela Maria Mencotti skoraði eftir að hafa leikið á varnarmann ÍA.

Draumabyrjun Þróttar sló Skagakonur út af laginu og áttu þær erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik. Þeim gekk illa að skapa sér færi og gestirnir voru nær því að bæta við en ÍA að minnka muninn.

ÍA liðið komst betur inn í leikinn í síðari hálfleik og náði að skapa sér nokkur ákjósanleg marktækifæri. Þróttarar lágu til baka og fengu nokkur tækifæri eftir skyndisóknir. Hvorugu liðinu tókst hins vegar að nýta þau færi sem sköpuðust og hægt og rólega fjaraði leikurinn út. Lokatölur á Akranesvelli urðu því 0-2, Þrótti í vil.

ÍA situr í öðru sæti deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki, jafn mörg og topplið Fylkis sem á þó leik til góða. Næst leikur ÍA þriðjudaginn 19. júní þegar liðið heimsækir Keflavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir