Byrjunarlið Kára fyrir leikinn gegn Víkingi R. Ljósm. Knattspyrnufélagið Kári.

Káramenn höfðu í fullu tré við úrvalsdeildarliðið

Kári féll úr Mjólkurbikar karla eftir 3-4 tap gegn Víking R. í ótrúlegum leik í Akraneshöllinni Akranesi í gærkvöldi. Kári leikur sem kunnugt er í 2. deild en Víkingur tveimur deildum ofar, í Pepsi deildinni.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega. Strax á 3. mínútu fengu Káramenn þrjú góð færi í sömu sókninni en Serigne Mor Mbaye, markvörður gestanna, varði vel í þrígang. Á 19. mínútu kom fyrsta mark leiksins þegar Örvar Eggertsson kom Víkingi yfir. En Káramenn voru ekki lengi að svara fyrir sig því Ragnar Már Lárusson jafnaði metin aðeins fjórum mínútum síðar. Næsta korterið eða svo voru gestirnir mun meira með boltann en gekk illa að skapa sér færi. Skömmu fyrir hálfleik fékk Kári aukaspyrnu á vítateigsboganum. Páll Sindri Einarsson tók spyrnuna og gerði sér lítið fyrir og skoraði með glæsilegu skoti efst upp í markhornið. Aðeins mínútu síðar nýtti Andri Júlíusson sér vandræðagang í vörn Víkings og kom Kára í 3-1 áður en flautað var til hálfleiks.

Gestirnir mættu mjög ákveðnir til síðari hálfleiks og voru fljótir að minnka muninn. Á 47. mínútu skoraði Davíð Örn Atlason með skalla eftir aukaspyrnu. Leikurinn var fjörlegur næstu mínúturnar og ekki leið á löngu þar til næsta mark leit dagsins ljós. Það skoraði Rick Ten Voorde með skalla eftir fyrirgjöf Örvars og gestirnir búnir að jafna í 3-3.

Bæði lið fengu sín tækifæri til að skora það sem eftir lifði venjulegs leiktíma. Hvorugu tókst hins vegar að nýta þau færi og því varð að grípa til framlengingar. Var það ekki fyrr en á 113. mínútu sem næsta mark var skorað og voru það gestirnir sem gerðu það. Nikolaj Hansen skallaði þá boltann til Alex Freys Hilmarssonar sem kláraði færið vel og tryggði Víkingi sigurinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir