Ljósm. úr safni/ þa.

Víkingur Ó. áfram í bikarnum

Víkingur Ó. tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Maltbikars karla með 0-1 útisigri á Fram í gærkvöldi.

Heimamenn byrjuðu af krafti en Víkingur Ó. var engu að síður sterkara liðið í fyrri hálfleik. Það kom því ekki mikið á óvart þegar þeir komust yfir á 36. mínútu. Ívar Reynir Antonsson fékk boltann hægra megin í teignum og fékk góðan tíma til að athafna sig. Hann þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að finna Vigni Snæ Stefánsson sem var aleinn á markteignum og lagði boltann snyrtilega í netið. Laglegt mark hjá Víkingi Ó. en varnarmenn Fram hefðu líklega átt að gera betur.
Framarar voru ákveðnari framan af síðari hálfleik án þess þó að skapa sér nein alvöru marktækifæri. Dró síðan til tíðinda á 65. mínútu. Guðmundur Magnússon, sóknarmaður Fram, var rekinn af velli og Framarar því manni færri. Ólafsvíkingar sluppu einir í gegn skömmu síðar en náðu ekki að nýta færið. Heimamenn sóttu í sig veðrið og sóttu mun meira það sem eftir lifði leiks, manni færri, en náðu ekki að gera sér mat úr því. Jafnt varð í liðunum í uppbótartíma þegar Vignir Snær fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að stöðva skyndisókn heimamanna. Fleiri mörk voru ekki skoruð og Víkingur Ó. verður því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitum bikarsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir