
Dramatískur sigur Skagamanna
ÍA tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær eftir dramatískan útisigur á Grindavík, 1-2.
Fyrri hálfleikur var markalaus en strax í upphafi þess síðari dró til tíðinda þegar Skagamenn komust yfir. Bjarki Steinn Bjarkason geystist upp vinstri kantinn og renndi boltanum fyrir markið. Þar var Steinar Þorsteinsson réttur maður á réttum stað og skoraði.
Bæði lið fengu sín tækifæri næsta hálftímann. Skagamenn fengu dauðafæri eftir fyrirgjöf en Stefán Teitur Þórðarson rétt missti af boltanum og Grindvíkingar áttu skot í stöng. Skagamenn voru heilt yfir sterkari og það var því gegn gangi leiksins þegar heimamenn jöfnuðu á 78. mínútu. Sam Hewson átti frábæra sendingu á Aron Jóhannsson sem var einn á auðum sjó í teignum og skallaði boltann í netið.
Leikurinn róaðist töluvert eftir jöfnunarmarkið og stefndi í framlengingu. En það varð ekki því Skagamenn náðu að stela sigrinum á 88. mínútu. Arnar Már Guðjónsson tók á móti fyrirgjöf, sneri á varnarmann og renndi boltanum í netið. Lokatölur urðu 1-2, ÍA í vil og Skagamenn því komnir í átta liða úrslit bikarsins.