Ljósm. úr safni/ þa.

Víkingur Ó. sótti sigur til Hafnarfjarðar

Víkingur Ó. vann góðan útisigur á Haukum þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu síðastliðinn föstudag. Leiknum lyktaði með einu marki gegn engu.

Leikmenn Víkings voru mun ákveðnari í fyrri hálfleik en náðu ekki að skapa sér nein afgerandi marktækifæri. Mikil harka var í leiknum á köflum og menn hikuðu ekki við að fleygja sér í tæklingar. Besta færi fyrri hálfleiks fengu Ólafsvíkingar rétt fyrir hléið. Gonzalo Zamorano átti þá skot sem smaug framhjá stöng heimamanna. Staðan í hálfleik var markalaus fyrir vikið.

Gestirnir frá Ólafsvík voru áfram heldur sterkari í síðari hálfleik án þess þó að skapa sér nein alvöru færi fyrst um sinn. En það átti eftir að breytast. Á 62. mínútu fengu þeir dauðafæri þegar Kwame Quee vann boltann og Víkingar komust þrír á móti tveimur. Boltinn var sendur á Gonzalo sem skaut hátt yfir markið. Loksins tókst Ólafsvíkingum síðan að brjóta ísinn á 76. mínútu. Boltinn féll fyrir Ingiberg Kort Sigurðsson í teignum sem gat ekki annað en skorað.

Haukar reyndu að snúa vörn í sókn það sem eftir lifði leiks en Víkingar voru þéttir fyrir og leyfðu þeim ekki að komast inn í leikinn aftur. Lokatölur urðu 0-1, Víkingi í vil.

Víkingur krækti með sigrinum í sitt sjöunda stig í deildinni og situr liðið í fjórða sæti, með jafn mörg stig og liðin í sætunum fyrir ofan og neðan. Næsti leikur liðsins í deildinni er gegn Selfossi sunnudaginn 3. júní næstkomandi. En fyrst mætir Víkingur liði Fram á útivelli í Mjólkurbikar karla. Sá leikur fer fram miðvikudaginn 30. maí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir