Fyrirliðinn Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði öll þrjú mörk ÍA. Ljósm. úr safni/ gbh.

Unnur Ýr með þrennu í sigri ÍA

Skagakonur unnu góðan útisigur á Fjölni, 2-3, þegar liðin mættust í þriðju umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Unnur Ýr Haraldsdóttir, fyrirliði ÍA, gerði sér lítið fyrir og skoraði öll þrjú mörk liðsins í leiknum.

Fyrri hálfleikur einkenndist af baráttu en ÍA liðið var heilt yfir sterkara. Skagakonur sköpuðu sér nokkur ágætis marktækifæri en tókst ekki að nýta þau. Færi heimaliðsins voru fá og engin teljandi ógn af sóknartilburðum þeirra. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Skagakonur juku kraftinn í sókninni í síðari hálfleik og komust yfir á 58. mínútu þegar Unnur skoraði sitt fyrsta mark í leiknum. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði hún aftur og ÍA liðið komið í ákjósanlega stöðu. En Fjölnisliðið sneri vörn í sókn og náði að minnka muninn á 73. mínútu með marki frá Söru Montoro. Vonir Fjölnis um að fá eitthvað út úr leiknum urðu hins vegar að engu þegar ÍA var dæmd vítaspyrna á 78. mínútu. Unnur steig á punktinn og fullkomnaði þrennuna af miklu öryggi. ÍA leiddi með þremur mörkum gegn einu allt þar til á lokaandartökum leiksins að Stella Þóra Jóhannesdóttir minnkaði muninn í 2-3. Þar við sat og ÍA komið í annað sæti deildarinnar með níu stig eftir sigur í fyrstu þremur leikjunum, jafn mörg og topplið Fylkis og tveimur stigum meira en Keflavík í sætinu fyrir neðan.

Næsti leikur ÍA er heimaleikur gegn Þrótti R. Sá leikur fer fram fimmtudaginn 14. júní á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir