Skagamenn fagna jöfnunarmarki Andra Adolphssonar. Ljósm. gbh.

Jafnt á Akranesvelli

ÍA og Njarðvík skildu jöfn, 2-2, í fjórðu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Akranesi á föstudag.

Gestirnir fengu óskabyrjun og komust yfir strax á 4. mínútu leiksins. Njarðvíkingar komust inn í slaka sendingu Skagamanna á miðsvæðinu. Þeir léku sín á milli þar til Stefán Birgir Jóhannesson fékk boltann á vinstri kanti. Hann sótti inn á miðjuna og lét skot ríða af fyrir utan teig. Skotið fór beint á Árna Snæ Ólafsson í markinu en hann missti boltann undir sig og í markið. Slæm mistök hjá Árna og gestirnir komnir yfir. Njarðvíkingar fengu tvö góð tækifæri til að bæta við í fyrri hálfleik en nýttu færin ekki. Skagamenn þreifuðu fyrir sér en tókst ekki að skapa sér ákjósanleg færi fyrr en á 38. mínútu. Og það færi nýttu þeir líka. Andri Adolphsson sýndi þá góða taka á vinstri kantinum, sendi boltann fyrir markið á Stefán Teit Þórðarson sem kláraði færið vel. Eitt mark hafði hvort lið skorað þegar flautað var til hálfleiks.

Skagamenn voru sterkari framan af síðari hálfleik og komust yfir á 66. mínútu. Eftir aukaspyrnu barst boltinn út að vítateigslínunni þar sem Andri sendi hann viðstöðulaust með vinstri í bláhornið niðri og Skagamenn komnir í 2-1.

Stuttu síðar dró til tíðinda þegar Njarðvíkingar fengu vítaspyrnu. Andri Fannar Freysson steig á punktinn en þrumaði vítaspyrnunni í þverslánna. Gestirnir sóttu stíft það sem eftir lifði leiks og freistuðu þess að jafna metin. Á 86. mínútu uppskáru þeir árangur erfiðis síns þegar Magnús Þór Magnússon skallaði boltann laglega í netið eftir hornspyrnu og staðan orðin 2-2.

Skagamenn fengu nokkur tækifæri á síðustu mínútunum til að stela sigrinum en náðu ekki að nýta þau. Leiknum lauk því með jafntefli og liðin fengu eitt stig hvort fyrir vikið. ÍA hefur því tíu stig eftir fyrstu fjóra leikina og situr í öðru sæti deildarinnar, með jafn mörg stig og HK á toppi deildarinnar. Næst leika Skagamenn í deildinni sunnudaginn 3. júní, þegar þeir mæta Fram á útivelli. Í millitíðinni mæta þeir hins vegar úrvalsdeildarliði Grindavíkur í Mjólkurbikarnum. Sá leikur fer fram í Grindavík á miðvikudaginn, 30. maí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir