Ljósm. Knattspyrnufélagið Kári.

Káramenn við toppinn

Káramenn gerðu góða ferð suður á Vatnsleysuströnd í gærkvöldi og sigruðu topplið Þróttar í Vogum með tveimur mörkum gegn engu. Með sigrinum lyftu Káramenn sér upp að hlið Þróttar á toppi 2. deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki. Athygli vekur að bæði eru liðin nýliðar í 2. deild, komu saman upp eftir síðasta leiktímabil.

Reynsluboltinn Jón Vilhelm Ákason kom Kára yfir á 16. mínútu leiksins og staðan var jöfn nær til leiksloka. Káramenn hugsuðu sér gott til glóðarinnar á 65. mínútu þegar þeir fengu vítaspyrnu. Guðlaugur Þór Brandsson steig á punktinn en Tom Lohmann í marki Þróttar varði frá honum. Heimamenn fengu líka sín tækifæri í leiknum og verða að teljast óheppnir að hafa ekki skorað í leiknum, því þrisvar sinnum björguðu Káramenn á línu. En inn vildi boltinn ekki og það var Kári sem átti lokaorðið þegar Ragnar Már Lárusson innsiglaði sigurinn í uppbótartíma.

Næsti deildarleikur Kára er sunnudaginn 3. júní, þegar liðið mætir Tindastóli. Í millitíðinni leikur Kári hins vegar gegn Pepsi deildar liði Víkings R. í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Báðir leikirnir fara fram á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir