Maren Leósdóttir í baráttu við tvo leikmenn Keflavíkur í leiknum í gær. Ljósm. gbh.

Skagakonur úr leik í bikarnum

Skagakonur féllu úr leik í Mjólkurbikar kvenna eftir 0-2 tap gegn Keflavík í gær. Leikið var um sæti í 16 liða úrslitum.

Barátta einkenndi leikinn og mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Bæði liðin lögðu upp með að spila þétta vörn og gefa fá færi á sér. Enda var leikurinn fremur daufur hvað það varðar lengst framan af. Skagakonur fengu ekki mörg marktækifæri í fyrri hálfleik og tókst ekki að nýta þau fáu færi sem þó tókst að skapa. Keflavíkurliðið átti sömuleiðis nokkrar álitlegar sóknir sem allar runnu út í sandinn. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri fyrstu mínúturnar. Allt þar til á fimm mínútna kafla í kringum 60. mínútu þegar Keflavík skoraði tvö mörk og breytti gangi leiksins algerlega. Fyrst skoraði Aníta Lind Daníelsdóttir eftir þvögu í teig ÍA á 57. mínútu. Fimm mínútum varð Eva María Jónsdóttir síðan fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir góða sókn gestanna.

Skagakonur reyndu sem mest þær máttu að komast aftur inn í leikinn. Þeim tókst að skapa sér nokkur ágætis tækifæri til að minnka muninn og setja pressu á gestina en tókst ekki að nýta þau. Keflvíkingar þéttu vörnina og beittu hröðum sóknum sem reyndu á stundum töluvert á vörn ÍA. En hvorugu liði tókst að skora, Keflavík fór því með sigur af hólmi og Skagakonur hafa lokið þátttöku í bikarnum í ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir