Stefán Teitur Þórðarson var á skotskónum og skoraði tvö af þremur mörkum Skagamanna í 3-1 sigri á Haukum. Ljósm. gbh.

Skagamenn höfðu mikla yfirburði

Skagamenn sigruðu Hauka örugglega, 3-1, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu á föstudag. Leikið var á Akranesvelli. Skagamenn tróna á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sumarsins.

Ákefð og kraftur einkenndi leik Skagmanna á föstudaginn. Þeir voru mættu mun ákveðnari til leiks og fengu dauðafæri strax á 5. mínútu. Þórður Þorsteinn Þórðarson slapp einn í gegn eftir vandræðagang í vörn Hauka en skot hans var slakt og auðveldlega varið. Yfirburðir ÍA liðsins voru algjörir framan af fyrri hálfleik. Haukar áttu skot í varnarmann og þaðan rétt framhjá stönginni eftir um 25. mínútna leik, en annars náðu þeir ekki að ógna markinu.

Það var því verðskuldað þegar Skagamenn tóku forystuna eftir hálftíma leik. Steinar Þorsteinsson kláraði vel einn á móti markmanni og skoraði þar með þriðja markið sitt í deildinni í vetur. Skömmu fyrir hálfleik fengu Skagamenn dauðafæri eftir frábæra sendingu Einars Loga Einarssonar á Stefán Teit Þórðarson sem mokaði knettinum yfir markið. Staðan í hléinu því 1-0.

Haukar virtust ákveðnar í upphafi síðari hálfleiks en það dugði þeim skammt. Skagamenn voru í miklu stuði og komust í 2-0 á 56. mínútu eftir skelfileg mistök Jökuls Blængssonar í marki Hauka. Langt innkast var flikkað áfram inn í teiginn. Jökull stökk á boltann en missti hann undir sig og fyrir fætur Stefáns Teits sem þakkaði pent og potaði boltanum yfir línuna.

Stefán Teitur var aftur á ferðinni á 67. mínútu þegar hann kláraði vel eftir undirbúning Steinars. Áfram voru Skagamenn sterkari og það var ekki fyrr en stutt var eftir að Haukar ógnuðu markinu aðeins. Á 84. mínútu minnkuðu þeir muninn þegar Daði Snær Ingason skoraði fallegt mark með skoti af löngu færi. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 3-1, Skagamönnum í vil.

ÍA hefur sem fyrr segir níu stig á toppi deildarinnar eftir þrjá leiki, tveimur stigum meira en næstu lið. Þeir fá tækifæri til að halda sigurgöngunni áfram næstkomandi föstudag, 25. maí, þegar þeir mæta Njarðvíkingum. Sá leikur fer fram á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir