Ljósm. úr safni/ þa.

Grátlegt tap Víkings Ó.

Liðsmenn Víkings Ó. máttu játa sig sigraða, 0-1, þegar þeir mættu Magna í 1. deild karla í knattspyrnu á laugardag. Leikurinn var jafn og fjörlegur og úrslitin réðust ekki fyrr en í uppbótartíma.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks og sköpuðu sér fullt af færum í fyrri hálfleik. Magnamenn skölluðu í þverslánna og yfir snemma leiks og fengu síðan dauðafæri eftir korters leik. Ívar Örn Árnason var aleinn á markteig Víkings þegar boltinn var sendur fyrir markið en skalli hans fór framhjá. Víkingar fengu einnig sín færi. Ingibergur Kort Sigurðsson komst inn í þversendingu, geystist að teignum og átti skot að marki en varnarmenn Magna komust fyrir boltann á síðustu stundu. Gonzalo Zamorano komst síðan einn gegn Ívari Erni skömmu fyrir hálfleik en Ívar varðist vel. Staðan því markalaus í hléinu.

Magnamenn voru ívið sterkari eftir hléið og sköpuðu sér fleiri færi en Víkingsliðið stóð vörnina vel. Ólafsvíkingar vildu fá víti á 71. mínútu þegar Ívar Reynir Antonsson féll í teignum en dómari leiksins var þeim ekki sammála og áfram hélt leikurinn. Víkingur Ó. sótti í sig veðrið eftir því sem leið á. Sóknarþungi þeirra jókst en Magni þétti vörnina og stóðu það af sér. Leikurinn virtist ætla að enda með jafntefli þegar Magnamenn skoruðu í uppbótartíma. Þeir sóttu og voru við það að sleppa í gegn þegar boltinn hrökk út í teiginn. Þar kom Bjarni Aðalsteinsson á ferðinni og lagði boltann í hornið fjær af mikilli yfirvegun og Magnamenn búnir að stela sigrinum. Leikmenn Víkings gerðu örvætningarfullar tilraunir til að jafna metin á lokasekúndum leiksins en gekk ekki. Magni sigraði 1-0 og krækti í fyrstu stigin í 1. deildinni.

Víkingur situr aftur á móti í fimmta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Njarðvík í sætinu fyrir ofan og Haukar og Þróttur R í sætunum fyrir neðan. Næst mæta Ólafsvíkingar liði Hauka að Ásvöllum á föstudag, 25. maí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir