Eyjólfur Ásberg Halldórsson í leik með Skallagrími nú í vor.

Eyjólfur og Bjarni áfram hjá Skallagrími

Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Bjarni Guðmann Jónsson hafa endurnýjað samninga sína við körfuknattleiksdeild Skallagríms. Munu þeir leika með liði Borgnesinga í Domino‘s deild karla næsta vetur. Báðir voru þeir í lykilhlutverki hjá Skallagrími sem hampaði deildarmeistaratitli 1. deildar á liðnum vetri. „Er áframhaldandi vera þeirra í liðinu því mikið fagnaðarefni,“ segir á vef Skallagríms.

Eyjólfur átti afar góðu gengi að fagna síðasta vetur. Hann skoraði 18,2 stig að meðaltali í leik, tók 10,3 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Eyjólfur var valinn leikmaður ársins í 1. deild á verðlaunahófi KKÍ, valinn í lið ársins og einnig valinn leikmaður ársins í meistaraflokki á lokahófi Skallagríms. Næsta leiktímabil verður þriðja keppnistímabil Eyjólfs með Borgnesingum, en hann gekk til liðs við Skallagrím árið 2016.

Bjarni Guðmann Jónsson á einnig afar gott tímabil að baki. Hann var í lykilhlutverki í liði Skallagríms, skoraði 9,6 stig, tók 4,9 fráköst og gaf 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Bjarni var valinn í lið ársins í 1. deildinni og útnefndur varnarmaður ársins á lokahófi Skallagríms. Bjarni er fæddur og uppalinn í Borgarnesi og hefur leikið með Skallagrími alla sína tíð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir