
Iðnaðarsigur Kára
Kári vann 1-0 sigur á Gróttu þegar liðin mættust í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Leikið var í Akraneshöllinni.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Fengu bæði lið nokkur ágætis tækifæri til að komast yfir sem ekki tókst að nýta og staðan var því markalaus í hléinu.
Það var stál í stál í upphafi síðari hálfleiks og hart barist á vellinum. Á 58. mínútu tókst Káramönnum að brjóta ísinn. Löng sending kom fram völlinn og gestunum tókst ekki að koma boltanum í burtu. Boltinn barst á Andra Júlíusson sem sendi hann á lofti til hægri. Þar kom Eggert Kári Karlsson aðvífandi og skoraði með viðstöðulausu skoti í hornið fjær. Glæsilegt mark, algerlega óverjandi fyrir markvörðinn og Káramenn komnir yfir.
Það sem eftir lifði leiks juku leikmenn Gróttu sóknarþungann en vörn Kára stóðst álagið. Lokatölur urðu 1-0 og Kári hefur sex stig eftir fyrstu þrjá leiki sumarsins. Næst Leikur Kári gegn toppliði Þróttar í Vogum, en sá leikur fer fram suður með sjó næsta fimmtudag, 24. maí.