Skagakonur fagna marki Unnar Haraldsdóttur skömmu fyrir hálfleik. Reyndist það verða eina mark leiksins. Ljósm. sas.

Unnu góðan útisigur í fyrsta leik

ÍA vann góðan útisigur á Haukum, 0-1, þegar liðin mættust í fyrstu umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu á föstudagskvöld. Liðunum er báðum spáð prýðilegu gengi í sumar og fyrirfram var því búist við jöfnum leik.

Sú varð einmitt raunin. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, sem einkenndist af mikilli baráttu. Bæði lið náðu að skapa sér nokkur ágætis marktækifæri framan af leik en tókst ekki að nýta þau. Það var síðan á 39. mínútu sem Unnur Haraldsdóttir náði að brjóta ísinn og koma ÍA yfir. Staðan 0-1 í hálfleik.

Liðin tóku upp þráðinn þaðan sem frá var horfið í síðari hálfleik. Leikurinn einkenndist af baráttu og jafnræði. Haukar lögðu áherslu á sóknarleikinn og fengu nokkur ágæt marktækifæri en Skagakonur vörðust vel og náðu að halda heimaliðinu markalausu allt til leiksloka. Þær sýndu jafnframt ágætis sóknartilburði á köflum í síðari hálfleik en þær sóknir báru ekki árangur.

Lokatölur urðu því 0-1 og þrjú stig í hús hjá ÍA í fyrsta leik sumarsins. Eftir fyrstu umferðina eru Skagakonur í fjórða sæti deildarinnar, en liðin fyrir ofan unnu einnig sína leiki í fyrstu umferðinni. Næst leikur ÍA á fimmtudaginn þegar liðið mætir ÍR í fyrsta heimaleik sumarsins á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir