Byrjunarlið Kára austur á Seyðisfirði. Ljósm. Knattspyrnufélag Kára.

Sögulegur sigur Kára

Páll Sindri Einarsson var hetja Kára þegar liðið krækti í fyrsta sigurinn í sögu félagsins í 2. deild karla í knattspyrnu. Hann skoraði öll mörk liðsins í 1-3 útisigri gegn Hugin á Seyðisfirði á laugardag. Varð hann þar með fyrsti leikmaðurinn í sögu félagsins til að skora þrennu í þriðju efstu deild Íslandsmótsins.

Heimamenn fengu algera draumabyrjun þegar Manuel Gasent Navarre kom þeim yfir strax á 5. mínútu leiksins. Þannig var staðan allt þar til lítið var eftir. Páll Sindri jafnaði metin fyrir á 74. mínútu og kom Kára síðan yfir á lokamínútu leiksins með marki úr aukaspyrnu. Í uppbótartíma innsiglaði Páll Sindri þrennuna og 1-3 sigur Kára.

Liðið fékk fyrstu stigin í 2. deild í hús með sigrinum og situr í sjöunda sæti með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. Næst leikur Kári á fimmtudaginn, 17. maí, þegar liðið tekur á móti Gróttu í Akraneshöllinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir