Víkingur Ó. hefur fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sumarsins. Ljósm. úr safni/ þa.

Jafntefli í hörkuleik

Víkingur Ó. og HK skiptu með sér stigunum eftir viðureign liðanna í 1. deild karla í knattspyrnu á laugardag. Leikurinn einkenndist af baráttu og hörku þar sem bæði lið fengu sín færi en gekk illa að nýta þau. Lokatölur urðu 1-1.

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og liðin létu finna fyrir sér frá fyrstu mínútu. Heimamenn virkuðu líklegri framan af leik og þeir skoruðu fyrsta mark leiksins á 32. mínútu. Eftir hornspyrnu Víkings brunuðu þeir upp í sókn. Ásgeir Marteinsson fékk boltann á hægri vængnum og sendi frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Kára Péturssyni sem skallaði hann í netið. Heimamenn komnir yfir, 1-0.

Leikurinn róaðist fyrst eftir markið en áður en langt um leið fóru liðsmenn Víkings að setja pressu á heimamenn. Það skilaði sér fljótt því á 40. mínútu vann Kwame Quee boltann á miðjum vallarhelmingi HK. Hann lék á þrjá varnarmenn og lét bylmingsskot vaða á markið. Skotið var varið en boltinn féll fyrir fætur Gonzalo Zamorano sem lagði hann í autt markið og jafnaði metin.

Litlu munaði að HK kæmist yfir að nýju á lokamínútu fyrri hálfleiks en Francisco Mansilla varði meistaralega gott skot Ólafs Arnar Eyjólfssonar.

Síðari hálfleikur fór fremur rólega af stað en baráttuna vantaði ekki. Eftir því sem leið á náðu heimamenn heldur yfirhöndinni í leiknum. Ólafsvíkingar björguðu á línu á 59. mínútu þegar HK átti skalla eftir horn og skömmu síðar fengu þeir víti eftir samstuð í teig Víkings. Bjarni Gunnarsson steig á punktinn og smellti boltanum í innanverða stöngina þaðan sem boltinn skrúfaðist fyrir markið aftur og að lokum aftur fyrir endamörk.

Hvorugu liði tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri það sem eftir lifði. Lokatölur leiksins urðu 1-1 og liðin skiptu því með sér stigunum. Víkingur situr í fimmta sæti deildarinnar með fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjunum, jafn mörg og þrjú næstu lið fyrir ofan en tveimur stigum á eftir toppliði ÍA. Næst leikur Víkingur á laugardaginn, 19. maí, þegar liðið heldur norður til Grenivíkur og mætir Magna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira