Steinar Þorsteinsson skoraði sigurmark ÍA gegn Þór á Akureyri. Ljósm. úr safni/ gbh.

Skagamenn sóttu sigur til Akureyrar

ÍA bar sigurorð af Þór með einu marki gegn engu þegar liðin mættust í annarri umferð 1. deildar karla í kanttspyrnu. Leikið var á Þórsvelli á Akureyri í gær. Leikurinn var líflegur og jafnræði með liðinum. Var það aðeins mark Steinars Þorsteinssonar snemma í síðari hálfleik sem skildi á milli.

Skagamenn voru sterkari í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér mörg afgerandi marktækifæri. Stefán Teitur Þórðarson fékk ágætt færi á 19. mínútu þegar heimamenn töpuðu boltanum klaufalega en brenndi af. Besta færi fyrri hálfleiks fengu Þórsarar. Árni Snær Ólafsson varði skot en Bjarki Viðarsson tók frákastið en tókst ekki að skora.

Þórsarar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti en það voru Skagamenn sem skoruðu aðeins fimm mínútum eftir hléið. Þórður Þorsteinn Þórðarson átti góðan sprett upp hægri kantinn, sendi boltann fyrir á Arnar Má Guðjónsson sem átti slakt skot að markinu. En heimamönnum tókst ekki að hreinsa boltann frá heldur barst hann á Steinar sem lagði hann snyrtilega í hornið fjær og kom ÍA yfir.

Heimamenn lögðu allt í sóknarleikinn það sem eftir lifði leiks en tókst ekki að skora. Næst komust þeir á lokamínútu leiksins þegar Arnór Snær Guðmundsson bjargaði á marklínu eftir misheppnað úthlaup Árna Snæs í markinu.

Lokatölur 0-1 fyrir ÍA og sigur í fyrstu tveimur leikjum mótsins staðreynd og sex stig komin í hús. Næst leikur ÍA föstudaginn 18. maí næstkomandi, þegar liðið mætir Haukum á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir