Liðsmenn Víkings Ó. gátu fagnað sigri í fyrsta leik Íslandsmótsins. Ljósm. úr safni.

Víkingur Ó. sótti sigur í fyrsta leik

Víkingur Ó. vann góðan útisigur á ÍR, 0-2, þegar liðin mættust í fyrstu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á laugardag. Þeir Ibrahim Sorie Barrie og Gonzalo Zamorano skoruðu mörk Víkings í síðari hálfleik.

Heimamenn í ÍR voru heldur ákveðnari í upphafi leiks en liðsmenn Víkings Ó. náðu helst að ógna markinu eftir föst leikatriði. Leikurinn var engu að síður nokkuð líflegur eftir að liðin höfðu gefið sér nokkrar mínútur í að læra inn á vindinn. Litlu munaði að ÍR-ingar kæmust yfir á 20. mínútu en þeir skölluðu boltann rétt yfir eftir góða fyrirgjöf. Næsta korterið eða svo datt leikurinn aðeins niður og fátt markvert gerðist. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru Ólafsvíkingar mun hættulegri. Fyrst átti Kristinn Magnús Pétursson skot rétt framhjá úr dauðafæri eftir undirbúning Gonzalo. Næst átti Kwame Quee þrumuskalla að marki ÍR sem Patrik Sigurður Gunnarsson varði meistaralega og staðan markalaus í hléinu.

Síðari hálfleikur var daufur fyrst um sinn og sterkur vindur gerði leikmönnum erfitt fyrir. Það var því nánast sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Víkingur skoraði á 57. mínútu. Gonzalo átti góða hornspyrnu sem skoppaði í gegnum þvöguna á Ibrahim sem þrumaði honum upp í markhornið. ÍR-ingar sóttu aðeins í sig veðrið eftir markið en sköpuðu sér engin alvöru færi. Það var heldur að Víkingur bætti við. Sú varð einmitt raunin á 83. mínútu. Ingibergur Kort Sigurðsson átti þá góðan sprett upphægri kantinn áður en hann lagði boltann á Gonzalo sem skoraði af öryggi og innsiglaði sigur Víkings.

Með sigrinum krækti Víkingur Ó. í þrjú stig og situr liðið í öðru sæti deildarinnar með þrjú stig, rétt eins og HK og ÍA í sætunum fyrir ofan og neðan. Næst mætir Víkingur Ó. liði HK. Sá leikur fer fram í Kórnum í Kópavogi næstkomandi laugardag, 12. maí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir