Leikmenn ÍA fagna. Ljósm. úr safni/ gbh.

Skagamenn byrjuðu mótið á sigri

ÍA sigraði Leikni R. með einu marki gegn engu í fyrstu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á laugardag. Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni og kvartaði enginn áhorfanda yfir því, enda gekk á með éljum á Akranesi þennan dag. Eina mark leiksins skoraði Steinar Þorsteinsson á 60. mínútu eftir undirbúning Andra Adolphssonar.

Skagamenn mættu ákveðnir til leiks og voru skipulagðir í sínum aðgerðum. Þeir tóku sér tíma í að þreifa fyrir sér gegn gestunum úr Breiðholtinu. En eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn urðu sóknir þeirra markvissari og þeir stöðugt líklegri til að taka forystuna. Markið lá í loftinu frá miðjum fyrri hálfleik og fram að hléi og yfirburðir Skagamanna voru algjörir. Litlu munaði að ÍA kæmist yfir skömmu fyrir hálfleik þegar Hörður Ingi Gunnarsson átti gott skot sem fór rétt framhjá markinu. Staðan því markalaus í hléinu.

Í byrjun síðari hálfleiks tóku Skagamenn upp þráðinn þaðan sem frá var horfið. Þeir stjórnuðu gangi mála inni á vellinum en gestirnir virkuðu ekki líklegir til afreka. Skagamönnum tókst að brjóta ísinn á á 61. mínútu. Andri Adolphsson lék þá varnarmenn gestanna grátt, sendi síðan boltann á Steinar Þorsteinsson sem skoraði auðveldlega og kom ÍA yfir, 1-0. Fleiri urðu mörkin ekki en Skagamenn hefðu þó hæglega getað skorað fleiri. Þeir áttu álitlega sókn þegar tíu mínútur lifðu leiks. Henni lauk með góðri fyrirgjöf á Steinar sem hitti ekki boltann í upplögðu færi. Garðar Gunnlaugsson slapp svo einn í gegnum vörn gestanna á lokamínútunni en skot hans var ekki nægilega gott til að bæta við í blálokin.

Skagamenn fengu þrjú stig að launum fyrir sigurinn og sitja í þriðja sæti eftir fyrstu umferð deildarinnar. Fyrir ofan eru Víkingur Ó. og HK sem einnig sigruðu fyrstu leiki sína í sumar. Næst leika Skagamenn á uppstigningardag, fimmtudaginn 10. maí, þegar þeir heimsækja Þór á Akureyri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir