Steinar Þorsteinsson skoraði fyrir ÍA í stórsigri á Selfossi. Ljósm. úr safni/ gbh.

Öll Vesturlandsliðin áfram í bikarnum

Leikið var í 32 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í gær og fyrradag. Þrjú Vesturlandslið voru enn með í keppninni áður en umferðin hófst; ÍA, Víkingur Ó. og Kári. Öll sigruðu þau sína leiki og eru því komin áfram í 16 liða úrslit. Næsta umferð bikarsins verður leikin dagana 30. og 31. maí næstkomandi.

 

Frábær byrjun ÍA á Selfossi

ÍA reið á vaðið á mánudag þegar liðið mætti Selfossi á útivelli. Bæði lið leika í 1. deild á komandi sumari. Skagamenn hófu leikinn af krafti og komust yfir strax á 2. mínútu með marki frá Arnari Má Guðjónssyni. Aðeins mínútu síðar var brotið á Ólafi Val Valdimarssyni í vítateignum og vítaspyrna dæmd. Þórður Þorsteinn Þórðarson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Frábær byrjun Skagamanna sló heimamenn út af laginu og þurftu þeir góðan tíma til að komast inn í leikinn aftur. Þeir náðu að minnka muninn á 25. mínútu með marki frá Gilles Ondo en Skagamenn voru áfram sterkari. Á 43. mínútu fékk Stefán Teitur Þórðarson laglega stungusendingu inn fyrir vörn Selfyssinga og skoraði með góðu skoti. Staðan í hálfleik 1-3 fyrir ÍA. Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri. Skagamenn láu til baka, þéttu vörnina og beittu skyndisóknum. Á 85. mínútu kom löng sending fram völlinn, beint á Steinar Þorsteinsson sem var einn og óvaldaður. Hann skoraði fjórða mark ÍA og innsiglaði 1-4 sigur.

 

Augljós getumunur

Í gær ferðuðust liðsmenn Víkings Ó. til Hveragerðis og mættu 4. deildar liði Hamars. Heimamenn byrjuðu leikinn afar vel, náðu forystunni strax á 4. mínútu með marki frá Samuel Mason og komust síðan í 2-0 á 25. mínútu þegar Samuel skoraði aftur. En eftir það tóku liðsmenn Víkings Ó. við sér og sýndu af hverju þeir eru þremur deildum fyrir ofan Hamar. Þeir minnkuðu muninn á 31. mínútu þegar heimaenn skoruðu sjálfsmark. Skömmu síðar jöfnuðu þeir metin með marki frá Kwame Quee og rétt fyrir hálfleik voru þeir komnir yfir eftir að Emmanuel Eli Keke skoraði. Staðan 2-3 í hálfleik. Bjartur Bjarmi Barkarson kom Víkingi í 2-4 snemma í síðari hálfleik en eftir það varð bið á næstu mörkum. Ívar Reynir Antonsson kom Víkingi í 2-5 á 82. mínútu en heimamenn náðu að klóra í bakkann undir lokin með marki Dimitrije Pobulic og lokatölur urðu 3-5 fyrir Víking Ó.

 

Markaregn í framlengingu

Kári tók á móti Hetti frá Egilsstöðum í Akraneshöllinni í gær, en bæði leika liðin í 2. deildinni. Leikurinn var vægast sagt kaflaskiptur og úrslitin réðust ekki fyrr en eftir framlengingu. Káramenn voru heilt yfir sterkari í venjulegum leiktíma en Hattarmenn vörðust vel og léku skipulega. Með heppni hefðu gestirnir hæglega geta stolið sigrinum. Markalaust var eftir 90 mínútur en mörkunum átti eftir að rigna inn í framlengingunni. Jón Vilhelm Ákason kom Kára yfir á fyrstu sekúndum framlengingarinnar með skalla af stuttu færi eftir góða sókn Kára og ótrúlega markvörslu markvarðar Hattar. Skömmu síðar jafnaði Sæbjörn Guðlaugsson fyrir gestina og staðan 1-1 eftir fyrri hluta framlengingarinnar. Eftir að flautað var til síðari hluta framlengingar náðu Káramenn góðum kafla og gerðu út um leikinn. Á fjögurra mínútna kafla skoraði Ragnar Már Lárusson tvisvar og Jón Vilhelm einu sinni og Káramenn komnir í 4-1. Halldór Bjarki Guðmundsson minnkaði metin í 4-2 á 112. mínútu en Alexander Már Þorláksson innsiglaði 5-2 sigur Kára á lokamínútunni. Káramenn eru þar með komnir í 16 liða úrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir