Bronsverðlaunasundsveitin í 4×100 m fjórsundi.

Syntu til verðlauna og settu met

Íslandsmeistaramótið í sundi í 50 metra laug fór fram í Laugardalslaug um liðna helgi. Tólf keppendur frá Sundfélagi Akraness tóku þátt í mótinu. Sneru keppendur heim með nokkra verðlaunapeninga auk þess sem eitt Akranesmet féll. Sævar Berg Sigurðsson vann til silfurverðlauna í 50 m bringusundi og Atli Vikar Ingimundarson hreppti bronsið í 100 m flugsundi á nýju persónulegu meti. Boðsundssveit félagsins hafnaði í þriðja sæti í 4×100 m fjórsundi, en sveitin var skipuð þeim Sævari Berg, Atla Vikari, Erlend Magnússyni og Sindra Andreas Bjarnasyni.

Þá setti Brynhildur Traustadóttir nýtt Akranesmet í 1500 m skriðsundi. Bætti hún aðeins tveggja vikna gamalt met sitt um hvorki meira né minna en 21 sekúndu. Skilaði það henni fjórða sæti í sundinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir