Bæði ÍA og Víkingur unnu stórsigur í Mjólkurbikar karla í gær.

Vesturlandsliðin unnu stórt í bikarnum

Bæði ÍA og Víkingur Ó. léku í fyrstu umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í gær, sumardaginn fyrsta. ÍA tók á móti ÍH á Akranesi en Víkingur Ó. heimsótti lið KFG. Bæði unnu Vesturlandsliðin stórsigur og tryggðu sér sæti í næstu umferð bikarsins sem leikin verður dagana í kringum mánaðamótin.

 

Steinar með fjögur í stórsigri ÍA

Leikur ÍA og ÍH í Akraneshöllinni var einstefna frá fyrstu mínútu. Getumunurinn á liðunum leyndi sér ekki, enda Skagamenn í 1. deild og ÍH í 4. deild. Eftir aðeins fimm mínútna leik kom Steinar Þorsteinsson Skagamönnum yfir og tveimur mínútum síðar skoruðu gestirnir sjálfsmark. Ólafur Valur Valdimarsson skoraði þriðja mark ÍA á 11. mínútu og stefndi í stórsigur ÍA. Stefán Teitur Þórðarson skoraði á 33. mínútu, Arnór Snær Guðmundsson fjórum mínútum síðar og Steinar skoraði annað mark sitt skömmu eftir það. Staðan var 6-0 í hléinu og úrslitin löngu ráðin. Steinar fullkomnaði þrennuna þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en eftir það róaðist leikurinn mikið. Skagamenn fengu þó sín færi sem þeir náðu ekki að nýta en sóknir gestanna voru fáar og ekki líklegar til árangurs. Á lokamínútu leiksins nýttu Skagamenn loks færi og þar var á ferðinni Steinar Þorsteinsson. Skoraði hann sitt fjórða mark og rak smiðshöggið á 8-0 sigur Skagamanna.

 

Öruggur útisigur Víkings Ó.

Á Bessastaðavelli heimsóttu liðsmenn Víkings Ólafsvíkur lið KFG. Yfirburðir Ólafsvíkinga voru töluverðir gegn 3. deildar liði KFG, en Víkingur Ó. leikur sem kunnugt er í 1. deild. Eftir 26 mínútna leik skoraði Ívar Reynir Antonsson fyrsta mark leiksins fyrir Víking Ó. og sjö mínútum síðar skoruðu heimamenn sjálfsmark. Staðan í hléinu var því 0-2, fyrir Víking Ó. Síðari hálfleikur var ekki nema fimm mínútna gamall þegar Sigurður Helgi Harðarson kom Ólafsvíkingum þremur mörkum yfir og skömmu síðar skoraði Kwame Quee fjórða mark liðsins. Leikurinn róaðist aðeins eftir það og það var ekki fyrr en á 85. mínútu að næsta mark kom. Það skoraði Kwame Quee einnig, úr vítaspyrnu eftir brot í teignum. Lokatölur urðu 0-5 stórsigur Víkings Ó. og liðið því komið áfram í næstu umferð Mjólkurbikarsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira