Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Skallagrímskonur komnar í sumarfrí

Skallagrímskonur féllu úr leik í úrslitakeppni Domino‘s deildar kvenna eftir tap gegn Haukum í Hafnarfirði í gærkvöldi, 77-63. Fyrir gærdaginn höfðu Haukar sigrað fyrstu tvo leikina, en sigra þurfti þrjá til að komast áfram í úrslit. Það var því á brattann að sækja fyrir Skallagrím gegn sterku liði deildarmeistara Hauka.

Það var þó ljóst strax í upphafi að Skallagrímskonur ætluðu ekki að gefa sig fyrr en í fulla hnefana. Þær byrjuðu af miklum krafti og komust í 4-16 snemma leiks. Þá tók Haukaliðið við sér og minnkaði muninn í þrjú stig áður en fyrsti leikhluti var úti en áfram höfðu Skallagrímskonur yfirhöndina. Um miðbik annars leikhluta meiddist Gunnhildur Lind Hansdóttir, leikmaður Skallagríms, illa á hné. Varð nokkur töf á leiknum og liðsfélagar hennar slegnir út af laginu. Haukar náðu góðum kafla og komust fimm stigum yfir. En með baráttu og góðum endaspretti náði Skallagrímur að jafna metin áður en flautað var til hálfleiks, 29-29 og leikurinn í járnum.

Skallagrímur byrjaði betur í síðari hálfleik áður en Haukar komust yfir. Skallagrímur fylgdi liðinu eins og skugginn og aðeins munaði tveimur stigum á liðunum fyrir lokafjórðunginn, 49-47. Það var ekki fyrr en þá að Haukar sýndu mátt sinn og megin og náðu að slíta sig frá Skallagrímsliðinu. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður höfðu Haukar tíu stiga forskot. Haukar hertu tök sín á leiknum og sigruðu að lokum með 14 stigum, 77-63.

Carmen Tyson-Thomas var stigahæst í liði Skallagríms með 20 stig og tók hún tíu fráköst að auki. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 18 stig og tók tíu fráköst en aðrar náðu ekki tveggja stafa tölu á stigatöflunni.

Whitney Michelle Frazier skoraði 31 stig og tók 14 fráköst í liði Hauka og Helena Sverrisdóttir átti risaleik, skoraði 20 stig, reif niður 19 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði tólf stig, tók tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Þrátt fyrir að hafa fallið út úr úrslitakeppninni gegn sterku liði Hauka mega Skallagrímskonur vel við una. Um áramót blés ekki byrlega fyrir liðinu í deildinni og fátt sem benti til þess að þær kæmust yfirhöfuð í úrslitakeppnina. En eftir þjálfaraskipti í janúar batnaði gengi liðsins mikið og með góðum endaspretti tókst Skallagrími að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, eitthvað sem fáir reiknuðu með þegar nýtt ár gekk í garð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir