Komnar með bakið upp við vegg

Skallagrímur og Haukar mættust öðru sinni í undanúrslitaviðureign Domino‘s deildar kvenna á föstudagskvöld. Leikið var í Borgarnesi. Deildarmeistarar Hauka stjórnuðu ferðinni og sigruðu að lokum með ellefu stigum, 64-75.

Haukaliðið mætti gríðarlega ákveðið til leiks, spilaði þétta vörn og gerði Skallagrímskonum mjög erfitt fyrir. Þær hittu aðeins úr þremur af fyrstu 18 skotum sínum utan af velli og Haukar höfðu góða forystu eftir fyrsta leikhluta, 8-17. Skallagrímskonur náðu ágætri rispu í öðrum leikhluta og hefðu með örlítið meiri yfirvegun og smá heppni getað komið sér upp að Haukaliðinu. En svo fór ekki og gestirnir höfðu tólf stiga forskot í hálfleik, 25-37.

Eftir hléið stjórnuðu gestirnir ferðinni og héldu nálægt 15 stiga forskoti megnið af þriðja leikhluta. Skallagrímur náði smá rispu og minnkaði muninn í sex stig seint í leiknum. En alveg um leið svöruðu Haukar fyrir sig og slökktu vonir Skallagríms um að stela sigrinum. Fór svo að lokum að Haukar sigruðu 64-75.

Carmen Tyson-Thomas átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 40 stig og tók 13 fráköst en það dugði skammt. Aðrir leikmenn náðu sér ekki á strik í stigasöfnun. Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoraði átta stig og tók sex fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði sex stig, tók 14 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Bríet Lilja Sigurðardóttir var með fimm stig og átta fráköst og Jeanne Lois Figueroa Sicat fimm stig einnig.

Whitney Michelle Frazier var stigahæst í liði Hauka með 26 stig, auk þess að taka 15 fráköst og gefa fimm stoðsendingar. Helena Sverrisdóttir var hársbreidd frá þrennunni með 21 stig, 13 fráköst og níu stoðsendingar og Rósa Björk Pétursdóttir skoraði 10 stig.

Haukar leiða einvígið með tveimur sigrum gegn engum, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki sigrar viðureignina. Það er því að duga eða drepast fyrir Skallagrímskonur fyrir þriðja leik liðanna sem fram fer í Hafnarfirði annað kvöld, þriðjudaginn 10. apríl.

Líkar þetta

Fleiri fréttir