
Arnar Guðjónsson tekur við Stjörnunni
Borgfirðingurinn Arnar Guðjónsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfuknattleik. Mun hann stýra liðinu í Domino‘s deild karla frá og með næsta keppnistímabili.
Arnar sleit barnsskónum í Reykholti en steig sín fyrstu skref sem körfuknattleiksþjálfari með Sindra á Höfn í Hornafirði árið 2005. Þaðan fór hann á Selfoss þar sem hann var aðstoðarþjálfari FSu um tveggja ára skeið áður en hann fluttist búferlum til Danmerkur árið 2009. Þar hefur hann þjálfað í efstu deild síðan við góðan orðstír, síðast hjá Svendborg Rabbits um fjögurra ára skeið. Undanfarin ár hefur hann jafnframt verið aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins og farið með liðinu á tvö síðustu Evrópumót, árin 2015 og 2018.