Liðin höfðu sætaskipti í deildinni. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Skallagrímskonur völtuðu yfir Stjörnuna

Skallagrímskonur rúlluðu upp Stjörnunni í mikilvægum leik í Domino‘s deild kvenna í Borgarnesi í gærkvöldi. Liðin bítast um fjórða sæti deildarinnar og þar með sæti í úrslitakeppninni og fyrirfram var búist við jöfnum og spennandi leik. Sú varð raunin í fyrri hálfleik, en Skallagrímskonur höfðu þó alltaf yfirhöndina. Þær stungu svo af í síðari hálfleik og unnu að lokum stórsigur, 89-69.

Skallagrímsliðið mætti miklu ákveðnara til leiks og komst í 14-5 þegar liðið var á fyrsta leikhluta. Þá gerði Stjarnan áhlaup og minnkaði muninn í eitt stig áður en leikhlutinn var úti, 20-19. Aftur tóku Skallagrímskonur að síga fram úr í öðrum leikhluta, náðu mest tíu stiga forskoti skömmu fyrir hlé, 40-30. Stjarnan klóraði í bakkann og minnkaði muninn í fjögur stig áður en hálfleiksflautan gall, 45-41.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað og aðeins þrjú stig voru skoruð fyrstu þrjár mínúturnar. Þá náði Skallagrímur mjög góðum leikkafla og eins og hendi væri veifað fóru Borgnesingar með 16 stiga forskot inn í lokafjórðunginn, 70-54. Skallagrímskonur juku forskot sitt í 20 stig snemma í fjórða leikhluta og héldu því forskoti meira og minna til leiksloka. Stjarnan fékk ekki rönd við reist og Skallagrímskonur sigruðu stórt, 89-69.

Carmen Tyson-Thomas átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 33 stig, tók 15 fráköst, gaf átta stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 18 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar og Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoraði tíu stig.

Danielle Victoria Rodriguez var atkvæðamest í liði Stjörnunnar með 32 stig, sex fráköst, tólf stoðsendingar og fimm stolna bolta. María Lind Sigurðardóttir skoraði tíu stig og tók átta fráköst.

Með sigrinum lyftu Skallagrímskonur sér upp í fjórða sæti deildarinnar og höfðu þar með sætaskipti við Stjörnuna. Liðin eru jöfn að stigum með 28 stig en Skallagrímur er fyrir ofan á innbyrðis viðureignum. Skallagrímskonur standa því betur að vígi fyrir lokaumferðina sem leikin verður á laugardaginn, 24. mars. Þá mæta þær liði Hauka á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir