Christian Covile og félagar hans í Snæfelli verða að sigra Hamar í Hveragerði á föstudaginn ætli þeir sér að halda í vonina um sæti í deild þeirra bestu að ári. Ljósm. úr safni.

Snæfellingar með bakið upp við vegg

Snæfell tók á móti Hamri í öðrum leik undanúrslitarimmunnar í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Eftir jafnan og spennandi leik lengst framan af máttu heimamenn sætta sig við tap, 89-104.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks þar sem liðin skiptust á að skora og leiða leikinn. Snæfell leidd með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta, 27-25. Snæfell náði góðri rispu í upphafi annars leikhluta en gestirnir frá Hveragerði minnkuðu muninn snarlega í tvö stig að nýju. Aftur náði Snæfell góðum kafla um miðbik leikhlutans og náði níu stiga forskoti, 41-32. En Hamarsmenn gáfu ekkert eftir og minnkuðu muninn í tvö stig áður en flautað var til hálfleiks, 55-53.

Leikurinn var í járnum eftir hléið. Gestirnir fylgdu heimamönnum eins og skugginn fyrstu mínútur síðari hálfleiks. Þeir náðu síðan forystunni seint í þriðja leikhluta og leiddu fyrir lokafjórðunginn, 69-71. Snæfell jafnaði í 71-71 snemma í fjórða leikhluta en eftir það náðu Hamarsmenn góðum kafla og höfðu sex stiga forystu um miðjan leikhlutann, 75-81. Þeir héldu uppteknum hætti og tókst að slíta sig frá heimamönnum á lokamínútunum. Fór svo að lokum að Hamar sigraði með 104 stigum gegn 89.

Christian Covile var atkvæðamestur í liði Snæfells með 24 stig og átta fráköst. Geir Elías Úlfur Helgason var með 22 stig og fimm stoðsendingar, Sveinn Arnar Davíðsson skoraði 15 stig og Viktor Marinó Alexandersson var með 13.

Í liði gestanna var Larry Thomas stigahæstur með 31 stig og fimm stoðsendingar að auki. Julian Nelson var með 22 stig og átta fráköst, Dovydas Strasunskas skoraði 15 stig og Þorgeir Freyr Gíslason tíu.

Snæfellingar hafa nú tapað fyrstu tveimur leikjum undanúrslitarimmunnar og eru komnir með bakið upp við vegginn fyrir þriðja leik liðanna sem fram fer í Hveragerði á föstudag, 23. mars. Það lið sem fyrr sigrar þrjá leiki kemst áfram í úrslitaviðureignina þar sem leikið er um eitt laust sæti í Domino‘s deildinni að ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir