Einar Örn Guðnason lyftir réttstöðu. Ljósm. úr safni/ Sveinn Þór.

Einar Örn setti Íslandsmet í bekkpressu

Um síðustu helgi var haldið Íslandsmót í klassískum kraftlyftingum og einnig Íslandsmót í klassískri bekkpressu. Bæði mótin voru haldin af Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur.

Helgin hófst með keppni í klassískri bekkpressu á laugardaginn. Kraftlyftingafélag Akraness átti þar tvo fulltrúa; Einar Örn Guðnason og Svavar Örn Sigurðsson. Svavar gerði sér lítið fyrir og sigraði í 74 kg flokki með lyftu upp á 145 kg. Skilaði það honum 104,7 Wilksstig og sjötta sætinu í stigakeppni allra flokka. Einar Örn Guðnason hreppti silfrið í 105 kg flokki með lyftu upp á 180 kg. Fékk hann fyrir lyftuna 107,6 Wilksstig og fjórða sætið í stigakeppninni.

Einar mætti síðan aftur til leiks daginn eftir þegar Íslandsmótið í klassískum kraftlyftingum fór fram. Hann lyfti 278,5 kg í hnébeygju, 270 kg í réttstöðulyftu og 186,5 kg í bekkpressu. Bekkpressulyfta Einars er nýtt Íslandsmet. Samanlagt lyfti Einar 735 kg sem skilaði honum öðru sæti í 105 kg flokki. Fékk hann 439,5 Wilksstig og hafnaði í þriðja sæti í stigakeppninni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir