Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn Stjörnunni á laugardag. Ljósm. úr safni.

Snæfell tapaði í baráttuleik

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn Stjörnunni, 69-65, eftir spennandi baráttuleik í Domino‘s deild kvenna á laugardag. Stjarnan krækti með sigrinum í mikilvæg stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og Stjarnan leiddi 10-9 um miðjan fyrsta leihluta. Snæfell skoraði aðeins fjögur stig næstu fimm mínúturnar og á meðan náðu heimakonur yfirhöndinni. Þær leiddu 23-13 eftir upphafsfjórðunginn. Snæfell lék betur í öðrum leikhluta og náði hægt og rólega að komast nær heimaliðinu. Þegar flautað var til hálfleiks höfðu Snæfellskonur minnkað forystu Stjörnunnar í fjögur stig, 40-36.

Bæði lið komu ákveðin til síðari hálfleiks og létu finna fyrir sér. Einkum var varnarleikur liðanna þéttur í þriðja leikhluta og lítið skorað. Snæfell minnkaði muninn í tvö stig og jafnaði síðan í 45-45 seint í leikhlutanum. En þá náði Stjarnan, skoraði næstu átta stig og hafði yfirhöndina fyrir lokafjórðunginn. 53-45. Snæfellskonur minnkuðu muninn í þrjú stig snemma í fjórða leikhluta en komust ekki nær að sinni. Aftur minnkuðu þær muninn í þrjú stig þegar þrjár mínútur lifðu leiks en eftir það náði Stjarnan góðri rispu og níu stiga forystu. Snæfell minnkaði muninn í fjögur stig á lokamínútum leiksins en komust ekki nær. Lokatölur urðu 69-65, Stjörnunni í vil.

Kristen McCarthy var atkvæðamest í liði Snæfells með 24 stig og 17 fráköst. Berglind Gunnarsdóttir skoraði 17 stig og tók sex fráköst en aðrar höfðu minna.

Í liði Stjörnunnar var Danielle Rodriguez með 29 stig, átta fráköst og níu stoðsendingar. Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 14 stig og tók fimm fráköst og María Lind Sigurðardóttir var með 13 stig og tíu fráköst.

Snæfell er í sjöunda sæti deildarinnar með 20 stig og á ekki möguleika á að komast í úrslitakeppnina að þessu sinni. Næst leikur liðið á miðvikudaginn, 21. mars, þegar liðið heimsækir Val.

Líkar þetta

Fleiri fréttir