Ljósm. úr safni.

Skallagrímur tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturunum

Skallagrímskonur þurftu að játa sig sigraðar, 82-86, eftir æspispennandi leik gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur í Domino‘s deildinni í gær. Leikið var í Borgarnesi.

Keflavík skoraði fyrstu stigin en eftir það náðu Skallagrímskonur yfirhöndinni. Þær létu finna vel fyrir sér og komust í 15-7 þegar lítið var eftir af fyrsta leikhluta. Þá náði Keflavík góðri rispu og tók forystuna örstutta stund. Skallagrímur átti síðan lokaorðið í fyrsta fjórðungi og leiddi með þremur stigum að honum loknum, 20-17. Leikurinn var í járnum í upphafi annars leikhluta. Keflavík minnkaði muninn í eitt stig og þannig fylgdust liðin að næstu mínúturnar. Skallagrímur náði síðan yfirhöndinni að nýju og tók að síga fram úr og leiddi með sjö stigum í hléinu, 40-33.

Keflavíkurkonur mættu ákveðnar til síðari hálfleiks og skoruðu fyrstu stigin eftir hléið. Skallagrímskonur spyrntu við fótum en gestirnir komust yfir seint í leikhlutanum með góðum leik. Skallagrímur náði að jafna metin í 61-61 fyrir lokafjórðunginn og leikurinn í járnum. Keflavík náði góðri rispu snemma í fjórða leikhluta og sjö stiga forskoti. Skallagrímur minnkaði muninn í þrjú stig með góðum kafla áður en gestirnir náðu aftur yfirhöndinni. Þegar tvær mínútur lifðu leiks leiddi Keflavík með átta stigum en þar með var ekki öll nótt úti. Skallagrímur minnkaði muninn í þrjú stig seint í leiknum og síðan tvö stig á lokasekúndunum. Gestirnir kláruðu leikinn á að setja niður tvö vítaskot og sigruðu 82-86.

Carmen Tyson-Thomas átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 39 stig og tók 17 fráköst. Jóhanna Björk Sveinsdóttir var með 16 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 13 stig, sex fráköst og níu stoðsendingar.

Brittany Dinkins var óstöðvandi í liði Keflavíkur og átti risaleik. Hún skoraði hvorki fleiri né færri en 48 stig, tók 13 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Erna Hákonardóttir skoraði ellefu stig en aðrar höfðu minna.

Skallagrímur situr í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig, tveimur stigum á eftir Stjörnunni í sætinu fyrir ofan, sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni í vor. Þessi tvö lið mætast í Borgarnesi í næstu umferð þar sem baráttan um sæti í úrslitakeppninni verður í algleymingi. Leikur Skallagríms og Stjörnunnar fer fram á miðvikudaginn, 21. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir