Viktor Marinó Alexandersson átti góðan leik gegn Hamri. Ljósm. úr safni.

Kanalausir Snæfellingar töpuðu í Hveragerði

Úrslitakeppni 1. deildar karla í körfuknattleik hófst um helgina. Snæfellingar mættu Hamri suður í Hveragerði og máttu játa sig sigraða, 106-93, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaviðureigninni.

Jafnt var á með liðunum í upphafi leiks en eftir það sigu heimamenn fram úr og leiddu með ellefu stigum eftir fyrsta leikhluta, 35-24. Áfram voru heimamenn sterkari í öðrum leikhluta og voru komnir í góða stöðu í hléinu, 61-42.

Hamarsmenn héldu þægilegri forystu en Snæfellingum gerðu sig ekki líklega til að koma sér inn í leikinn að nýju. Þeir náðu aðeins að laga stöðuna í þriðja leikhluta en ekkert meira en það. Hamar leiddi með 16 stigum fyrir lokafjórðunginn, 86-70. Það var ekki fyrr en þá að Snæfellsliðið virtist taka aðeins við sér. Hægt og sígandi náðu þeir að minnka forskot heimamanna niður í ellefu stig en nær komust þeir ekki. Hamarsmenn juku lítið eitt við forystuna að nýju og sigruðu að lokum með 13 stigum, 106-93.

Reynsluboltinn Sveinn Arnar Davíðsson var stigahæstur í liði Snæfells með 19 stig. Viktor Marinó Alexandersson var með 15 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar, Þorbergur Helgi Sæþórsson 15 stig og fimm fráköst, Nökkvi Már Nökkvason tólf stig og sex fráköst og Eiríkur Már Sævarsson skoraði tólf stig einnig.

Snæfell lék án Christian Covile, sem þurfti að snúa til heimalands síns Bandaríkjanna, af persónulegum ástæðum fyrir helgi. Munar um minna, en Christian hefur leikið afar vel með Hólmurum í vetur. Vonir standa til að hann geti leikið með Snæfelli í næstu viðureign liðanna sem fram fer í Stykkishólmi í kvöld, mánudaginn 19. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir