Skallagrímur lyfti sér upp í fjórða sæti

Skallagrímur lyfti sér upp í fjórða sæti Domino‘s deildar kvenna með sannfærandi sigri á Breiðabliki í gærkvöldi. Skallagrímsliðið hafði yfirhöndina allan leikinn og vann að lokum stórt, 65-85.

Skallagrímskonur byrjuðu betur og tóku síðan öll völd á vellinum um miðjan upphafsfjórðunginn. Breiðablik átti erfitt uppdráttar og Skallagrímur leiddi örugglega eftir fyrsta leikhluta, 25-10. Heimaliðið náði sér betur á strik í öðrum leikhluta en Skallagrímur hélt áfram forystunni. Blikar náðu að minnka muninn í fimm stig um miðjan annan leikhluta en Skallagrímur átti lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddi með ellefu stigum í hléinu, 34-45.

Blikar minnkuðu muninn í sex stig í upphafi síðari hálfleiks en eftir það náðu Skallagrímskonur aftur góðum tökum á leiknum. Með góðri rispu seint í þriðja leikhluta tryggðu þær sér þægilegt 15 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 49-64. Breiðablik minnkaði muninn í níu stig snemma í fjórða leikhluta en nær komust þær ekki. Skallagrímskonur settu í fluggírinn og kláruðu leikinn. Lokatölur urðu 65-85, Skallagrími í vil.

Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest í liði Skallagríms með 24 stig og 14 fráköst. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 13 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar, Bríet Lilja Sigurðardóttir var með 13 stig og sex fráksöt og Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 13 stig einnig.

Whitney Kiera Knight skoraði 26 stig fyrir Breiðablik og tók 13 fráköst og Sóllilja Bjarnadóttir var með 21 stig og sjö stoðsendingar.

Eftir sigurinn situr Skallagrímur í fjórða sæti deildarinnar með 26 stig, jafn mörg og Stjarnan í sætinu fyrir neðan. Fjórða sætið gefur keppnisrétt í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn og baráttan er hörð. Liðin eiga eftir að leika innbyrðis en næst mætir Skallagrímur liði Keflavíkur á útivelli næstkomandi sunnudagskvöld, 18. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir