Inga María Hjartardóttir, tónlistarkona frá Akranesi.

Inga María komin í úrslit í alþjóðlegri lagahöfundakeppni

Tónlistarkonan Inga María Hjartardóttir frá Akranesi er komin í úrslit í alþjóðlegri lagahöfundakeppni, International Songwriting Competition. Árlega senda þúsundir lagahöfunda lög í keppnina í von um að verða valdir lagahöfundar ársins. Í þetta skiptið var slegið aðsóknarmet, þar sem 16 þúsund manns sendu lög í keppnina. Aðeins tvö prósent þeirra sem sendu lög í keppnina að þessu sinni komust í úrslit keppninnar. Er Inga María ein af þeim.

Lag Ingu Maríu heitir Good in Goodbye og keppir í flokknum „unpublished“. Það orð er haft í Bandaríkjunum um lög sem tónlistarfólk gefur út sjálft, án aðstoðar útgefenda eða plötufyrirtækja. Þegar þessi orð eru rituð hefur lag Ingu Maríu fengið flest atkvæði í sínum flokki og er því í efsta sæti.

Það er síðan dómnefnd skipuð einvalaliði tónlistarmanna sem mun sjá um að velja sigurvegara í keppninni. Dómnefndina skipa meðal annarra Grammy-verðlaunahafarnir Tom Waits, Lorde og Don Omar, ásamt fleiri þekktum tónlistarmönnum. Þar að auki gefst almenningi kostur á að kjósa sitt uppáhalds lag og mun sigurvegari þeirrar kosningar hljóta stór verðlaun og viðurkenningu að launum.

Hægt er að kjósa lag Ingu Maríu í keppninni með því að smella hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir