Christian Covile og félagar hans í Snæfelli mæta Hamri í úrslitakeppni 1. deildar karla. Ljósm. úr safni/ Haukur Páll.

Tap í lokaleiknum en úrslitakeppnin framundan

Snæfell mátti sætta sig við tap gegn Breiðabliki, 86-112, í lokaleik 1. deildar karla í körfuknattleik á föstudag. Leikið var í Stykkishólmi og höfðu heimamenn ekki að neinu að keppa, þar sem þeir höfðu þegar tryggt sér fimmta sæti deildarinnar og þar með sæti í úrslitakeppninni. Gestirnir úr Kópavogi náðu hins vegar með sigri að tryggja sér þriðja sætið og heimavallarrétt í úrslitakeppninni.

Heimamenn byrjuðu betur en Blikar komust yfir fyrir miðjan upphafsfjórðunginn og leiddu að honum loknum, 23-31. Gestirnir áttu síðan annan leikhluta með húð og hári. Þeir voru mun starkari og náðu mest 17 stiga forystu skömmu fyrir hléið. En Snæfell tók smá rispu undir lokin og minnkaði muninn í 13 stig áður en hálfleiksflautan gall, 43-56.

Breiðablik hélt áfram þægilegri forystu í þriðja leikhluta á meðan Snæfellsliðið virkaði aldrei líklegt til afreka. Blikar leiddu 66-80 fyrir lokafjórðunginn. Þeir bættu enn við forskotið í lokafjórðungnum og sigruðu að endingu með 26 stigum, 86-112.

Christian Covile skoraði 32 stig fyrir Snæfell, tók tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Geir Elías Úlfur Helgason var með 13 stig, Aron Ingi Hinriksson tólf og Þorbergur Helgi Sæþórsson tíu.

Snorri Vignisson var stigahæstur í liði gestanna með 25 stig og tíu fráköst. Christopher Woods var með 21 stig og átta fráköst, Jeremy Smith 21 stig og sex stoðsendingar, Árni Elmar Hrafnsson 17 stig og sex stoðsendingar og Sveinbjörn Jóhannesson 15 stig og fimm fráköst.

Snæfell hafði sem fyrr segir tryggt sér fimmta sæti deildarinnar fyrir leikinn á föstudag. Framundan er úrslitakeppni 1. deilar, þar sem liðið mætir Hamri í undanúrslitum. Fyrsta viðureign liðanna fer fram á föstudaginn, 16. mars, í Hveragerði. Það lið sem fyrr sigrar þrjá leiki kemst áfram í úrslitaviðureignina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir