Carmen Tyson-Thomas átti stórleik í mikilvægum sigri Skallagríms. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Skallagrímur færist nær úrslitakeppninni

Skallagrímur vann góðan sigur á Val, 83-75, þegar liðin mættust í Borgarnesi í gærkvöldi. Þar með kræktu Borgnesingar í mikilvæg stig í baráttunni um fjórða sæti Domino‘s deildar kvenna og þar með sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi í upphafi. Liðin skiptust á að skora og leiða leikinn framan af fyrsta leikhluta. Skallagrímskonur komust yfir seint í fjórðungnum og leiddu með einu stigi að honum loknum, 19-18. Þær héldu forystunni allt til hálfleiks en Valsliðið fylgdi fast á hæla þeirra. Mest náði Skallagrímur sjö stiga forskoti en Valur minnkaði það niður í þrjú stig áður en hálfleiksflautan gall, 43-40.

Liðin tóku upp þráðinn þaðan sem frá var horfið í síðari hálfleik. Skallagrímur hafði heldur yfirhöndina en Valskonur fylgdu þeim hvert fótmál. Undir lok þriðja leikhluta tókst Skallagrímskonum aðeins að síga fram úr. Þær náðu mest tíu stiga forskoti, 57-47, en Valur setti síðustu stig leikhlutans og lagaði stöðuna í 57-50 fyrir lokafjórðunginn. Valsliðið mætti mjög ákveðið til fjórða leikhluta, minnkaði muninn snarlega í eitt stig og hleypti mikilli spennu í leikinn. Þannig fylgdust liðin að þar til um miðjan leikhlutann. Þá náði Skallagrímur góðri rispu og sjö stiga forskoti. Þeim tókst að Valsliðinu í skefjum til leiksloka og sigruðu að lokum með átta stigum, 83-75.

Carmen Tyson-Thomas átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 32 stig, greif niður 20 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Jóhanna Björk Sveinsdóttir var með 17 stig og sjö fráköst, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir skoraði 16 og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með ellefu stig, níu fráköst og átta stoðsendingar.

Hallveig Jónsdóttir var stigahæst í liði Vals með 23 stig en Aalyah Whiteside skoraði 22 stig, tók 14 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir skoraði ellefu stig en aðrar höfðu minna.

Með sigrinum krækti Skallagrímur í sitt 24. stig og situr í fimmta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Stjörnunni í því fjórða, sem gefur sæti í úrslitakeppninni í vor. Næst leikur Skallagrímur á miðvikudaginn, 14. mars, þegar liðið sækir Breiðablik heim.

Líkar þetta

Fleiri fréttir